Innlent

Körfuboltakappi og kærasta handtekin fyrir stórfelldan þjófnað

Dimitar Karadzovski hefur leikið sinn síðasta leik með Stjörnunni.
Dimitar Karadzovski hefur leikið sinn síðasta leik með Stjörnunni.

Makedónski körfuboltakappinn Dimitar Karadzovski, sem leikið hefur með Stjörnunni, var handtekinn í gær í Garðabæ ásamt kærustu sinni. Þau er grunuð um stórfelldan þjófnað og standa skýrslutökur yfir.

Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar birti yfirlýsingu á heimasíðu sinni í gærkvöld þar sem fram kom að félagið hefði sagt upp samningi við Dimitar Karadzovski vegna trúnaðarbrests.

Gunnar Kr. Sigurðsson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, sagði í samtali við Vísi að málið væri í rannsókn hjá lögreglunni og hann gæti ekki tjáð sig um það. Gunnar sagði að rætt hefði verið við Karadzovski um helgina og eftir það hefði verið ákveðið að láta lögregluna um málið. "Þetta er ömurlegt mál fyrir alla aðila og í raun óskiljanlegt," segir Gunnar.

Heimildir Vísis herma að Karadzovski og kærasta hans séu grunuð um stórfelldan þjófnaði úr búningsklefum í íþróttahúsinu í Garðabæ og í partýum sem þau hafa sótt. Þýfið hafi þau síðan sent úr landi.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti að par hefði verið handtekið vegna gruns um þjófnað en ekki væri enn vitað um hve mikla fjármuni væri að ræða. Ekki hefur verið farið fram á gæsluvarðhald yfir Karadzovski og kærustu hans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×