Viðskipti innlent

Þeir ríku verða ríkari …

„Mun þessi vinningur hafa merkjanleg áhrif á líf mitt? Nei,“ sagði Keenan Altunis, 33 ára, þegar hann tók við fyrstu greiðslunni af „Ein milljón á ári“-vinningi ríkishappdrættis New York. Altunis, sem vinnur hjá fjárfestingarbanka í London og er margmilljónamæringur, mun héðan í frá þiggja eina milljón í viðbót, á ári. Altunis segist vera „forfallinn lottóspilari“ og ekki geta staðist freistinguna að biðja mömmu sína um að kaupa fyrir sig fjóra 30 dollara miða í happdrættinu þegar hann var í heimsókn hjá henni í haust. Nú, eftir að hann hefur unnið, segist hann þó hafa blendnar tilfinningar til vinningsins. Hann vill því forðast sviðsljósið og tala sem minnst um vinninginn, sérstaklega vegna þess hversu margir af vinum hans hafa tapað vinnunni. „En ekki misskilja mig, milljón á ári er fullt af peningum.“ Engar fréttir hafa enn borist af því hvort Altunis hyggist gefa hluta vinningsins til góðgerðarmála. … og fátækari fá betri græjurÁhugi verslunarkeðjunnar WalMart á sjálfbærri þróun hefur vakið athygli. Fyrirtækið býst við stórfelldum breytingum á neyslumunstri um allan heim. Nýverið lýsti Lee Scott, forstjóri WalMart, því yfir að til dæmis myndi fólk hætta að kaupa ódýr raftæki sem entust aðeins í skamman tíma. „Neytendur verða æ meðvitaðri um sjálfbæra þróun og munu því hætta að kaupa fjögurra dollara brauðristir sem endast bara í eitt ár. Í staðinn mun fólk kaupa hluti sem endast þeim alla ævi.“ WalMart hyggst græða á þessari þróun með því að selja heimilistæki sem endast lengur, tíu til fimmtán ár að jafnaði.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×