Innlent

Mega ekki nota Merrild-auglýsingu með Kristni R.

Kristinn R. Ólafsson er löngu landsþekktur fyrir pistla sína frá Spáni.
Kristinn R. Ólafsson er löngu landsþekktur fyrir pistla sína frá Spáni.

Neytendastofa hefur bannað Ölgerð Egils Skallagrímssonar að að birta auglýsingu með fréttaritanum Kristni R. Ólafssyni á Spáni þar sem fullyrt er að Merrild sé besta kaffihúsið í bænum.

Að mati Neytendastofu brýtur auglýsingin í bága við lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum þar sem látið sé liggja að því að Merrild sé besta kaffið en slíkt megi ekki. Það var heildsalan Innes sem kvartaði yfir auglýsingunni og benti á að Ölgerðin hefði ekki sannað fullyrðinguna.

Ölgerðin svaraði því til að í auglýsingunni kæmi fram þjóðþekktur einstaklingur, Kristinn R. Ólafsson, sem byggi á Spáni og væri þekktastur fyrir viðamikla þekkingu á spænskri menningu og þjóðlífi. „Merrild, besta kaffihúsið í bænum" væri orðaleikur hjá Kristni því eins og fram kæmi í auglýsingunni þætti honum kaffisopinn alltaf bestur heima hjá sér þrátt fyrir fjölda góðra kaffihúsa í Madrid.

Benti Ölgerðin enn fremur á að á Íslandi væri ekki rekið kaffihús undir merkjum Merrild og væri hvorki um að ræða beinan né óbeinan samanburð við keppinaut Ölgerðarinnar.

Innes hélt því hins vegar fram að auglýsingin fæli í sér samanburð og þar sem ekkert Merrild-kaffihús væri rekið á Íslandi skildu neytendur auglýsinguna svo að verið sé að vísa til Merrild kaffis.

Undir það tók Neytendastofa og sagði augljósan þann tilgang fullyrðingarinnar að gefa þá mynd að Merrild væri besta kaffið. Slík fullyrðing hlyti að vera byggð á mati en ekki staðreyndum. Taldi stofnunin Ölgerðina því hafa brotið gegn lögum og fyrirtækinu væri bannað að nota fullyrðinguna að Merrild væri besta kaffihúsið í bænum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×