Viðskipti innlent

RÚV ekki einsdæmi

Þorsteinn Þorsteinsson 
Markaðsstjóri RÚV telur stöðu RÚV alls ekki einsdæmi og vísar ásökunum Sigríðar og Péturs til föðurhúsanna.markaðurinn/aðsend Mynd
Þorsteinn Þorsteinsson Markaðsstjóri RÚV telur stöðu RÚV alls ekki einsdæmi og vísar ásökunum Sigríðar og Péturs til föðurhúsanna.markaðurinn/aðsend Mynd
Andsvar við orðum Sigríðar Margrétar:

Ásökunum Sigríðar um undirboð RÚV vísa ég til föðurhúsanna. RÚV er verðleiðandi með hæsta verðið, bæði á útvarps- og sjónvarpsmarkaði, og ætlar sér að vera áfram í þeirri stöðu.

Það er rangt að staða RÚV á auglýsingamarkaði sé einsdæmi í Evrópu. Danska ríkið á og rekur t.d. TV 2 sem er með 60 prósent af danska auglýsingamarkaðnum í sjónvarpi þar í landi. Einkastöðvarnar hér á landi búa því við mun betri kost en samsvarandi stöðvar í Danmörku.

Flestar ríkisstöðvar í Evrópu eru auk þess með sambland af afnota- og auglýsingatekjum. Ríkisstöðvarnar í Hollandi, Belgíu, Þýskalandi, Austurríki, Frakklandi, Spáni, Portúgal, Ítalíu og Írlandi eru allar með auglýsingatekjur.



Andsvar við orðum Péturs:

Pétur kvartar gjarnan undan „skakkri samkeppnisstöðu", „ríkis­styrkjum" og „forgjöf" RÚV en nefnir aldrei sterka stöðu 365 miðla á þessum markaði.

Tekjur 365 á ljósvakamarkaði af áskrift og auglýsingum eru mun hærri en samsvarandi tekjur RÚV (afnotagjöld + auglýsingar) þannig að ég skil ekki þennan söng.

Einnig er það villandi í málflutningi Péturs að tala um ríkis­styrk þegar Héraðsdómur Reykjavíkur er nýlega búinn að kveða úr um það að afnotagjaldið sé þjónustugjald en ekki skattur.

Hvað forgjöfina varðar má nefna það að ITV í Bretlandi, sem er stærsta einkarekna stöðin þar í landi, hefur ekki leyfi til að innheimta áskriftargjöld og rekur sig því alfarið á auglýsingatekjum.

Það er því ekki sjálfgefið að fyrirtæki eins og 365 innheimti áskriftargjald. Það má því alveg eins kalla það forgjöf að 365 búi við tvo tekjustofna, þ.e. áskrift og auglýsingar.

Um úrskurð Samkeppnis­eftirlitsins er það að segja að Samkeppniseftirlitið sá enga ástæðu til að aðhafast neitt í málinu sem segir sína sögu, jafnvel þótt Pétur reyni hér að láta í annað skína. Það er eindreginn vilji Alþingis og þar með þjóðarinnar að RÚV starfi á þessum markaði innan þess ramma sem nú gildir hvað sem Pétri nú þykir um það.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×