Körfubolti

Friðrik Stefánsson á leið í hjartaaðgerð

Friðrik Stefánsson þarf í hartaaðgerð
Friðrik Stefánsson þarf í hartaaðgerð

Landsliðsmiðherjinn Friðrik Stefánsson hjá Njarðvík getur ekki spilað með liðinu á næstunni, en hann þarf að fara í hjartaaðgerð í næstu viku. Friðrik varð fyrst var við að ekki væri allt með felldu þegar hann féll í yfirlið í leik fyrir tveimur árum.

"Ég held nú að þetta sé ekkert mjög alvarlegt. Það sem er að angra mig heitir gáttaflökt og veldur því að hjartað á mér fer bara á fullt en nær ekki að dæla súrefni út í útlimina. Læknarnir eru nú búnir að reyna að útskýra þetta fyrir mér á leikmannamáli en ég kann ekki að hafa það eftir," sagði Friðrik í samtali við Vísi í dag. Hann segist hafa verið lengi að glíma við vandamálið.

"Það leið yfir mig í leik gegn ÍR fyrir tveimur árum en það féll alveg í skuggann af einhverjum látum sem urðu á leiknum. Það leið líka yfir mig í landsleik einu sinni, en ég hélt alltaf að þetta væri eitthvað allt annað," sagði Friðrik.

Hann fer í viðtal og skoðun hjá lækni á þriðjudaginn og á svo von á því að fara í aðgerð á miðvikudeginum. "Menn eru bjartsýnir á að þetta verði allt í lagi og ég geti alveg farið að spila aftur, en á þessu stigi málsins er samt voða lítið hægt að segja um þetta," sagði Friðrik.

Hann verður því á hliðarlínunni í kvöld þegar hans menn mæta Snæfellingum í síðari undanúrslitaleik Powerade-bikarsins í Laugardalshöllinni klukkan 21. Fyrr um kvöldið spila KR og Skallagrímur fyrri leikinn, eða klukkan 19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×