Innlent

Vinstri flokkarnir farnir að gæla við Sjálfstæðisflokk

MYND/Valgarður

Guðni Ágústsson segir að í Silfri Egils í hádeginu í dag hafi komið fram að vinstriflokkarnir virðist báðir vera að gæla við samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, þvert á fyrri yfirlýsingar. Hann segir að Bjarni Harðarson hafi aðeins verið með merkilegar vangaveltur þegar hann sagðist telja vinstristjórn vera farsælli kost en óbreytt stjórnarmynstur.

„Ég held að Bjarni hafi eins og aðrir í þættinum verið með vangaveltur og nokkuð merkilegar vangaveltur útaf fyrir sig," segir Guðni og bætir því við að erfitt geti reynst fyrir ríkisstjórnina að starfa með aðeins einn mann í plús. Guðni segist frekar hafa hoggið eftir viðbrögðum annara sem sátu með Bjarna í þættinum, þeirra Ögmundar Jónassonar og Össurs Skarphéðinssonar.

„Þegar Bjarni hafði velt þessu upp kom annað merkilegra í ljós, að Ögmundur og Össur virðast báðir vera á glugganunm hjá Sjálfstæðisflokknum," segir Guðni.

„Nú heyrðist mér að þeir útilokuðu ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn eins og þeir lýstu svo oft yfir í kosningabaráttunni."

Guðni segir ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn, sem náð hafi að bæta tapið sem hann varð fyrir í kosningunum 2003, hafi nú gríðarlega sterka stöðu. Boltinn sé því hjá Geir Haarde forsætisráðherra. „Við framsóknarmenn þurfum nú að fara yfir stöðuna með heiðarlegum hætti, jafnt innan flokksins og með Sjálfstæðisflokki."

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir alls endis ótímabært að tjá sig um líkur á áframhaldandi stjórnarsamstarfi. „Það er allt opið í þeim efnum. Jón Sigurðsson formaður okkar heldur utan um umboð okkar í Framsóknarflokknum. Ég mun því bara bíða og sjá." Aðspurð hvenær hún teldi að niðurstaða fáist um stjórnarmyndun sagði hún ómögulegt að áætla það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×