Innlent

Tuttugu og fjögur ný andlit á Alþingi

Björn Gíslason skrifar

Tuttugu og fjórir nýir þingmenn taka til starfa á nýju Alþingi miðað við úrslit kosninganna í gær. Nærri helmingur þeirra kemur úr Sjálfstæðisflokknum.

Tveir framsóknarmenn koma nýir á þing en það eru þeir Höskuldur Þór Þórhallsson í Norðausturkjördæmi og Bjarni Harðarson í Suðurkjördæmi.

Fyrir Sjálfstæðisflokkinn setjast þau Guðfinna S. Bjarnadóttir og Illugi Gunnarsson á þing í Reykjavíkurkjördæmi norður og suður. Í Suðvesturkjördæmi eru hvorki fleiri né færri en fjórir nýir þingmenn hjá flokknum, þau Ármann Kr. Ólafsson, Jón Gunnarsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Enn fremur koma þau Kristján Þór Júlíusson og Ólöf Nordal ný á þing fyrir flokkinn í Norðausturkjördæmi og í Suðurkjördæmi sest Árni Johnsen aftur á þing eftir hlé og Björk Guðjónsdóttir kemur ný inn.

Hjá Frjálslynda flokknum er helmingur þingflokksins nýr, en það eru þeir Jón Magnússon í Reykjavíkurkjördæmi suður og Grétar Mar Jónsson í Suðurkjördæmi.

Hjá Samfylkingunni eru fimm ný andlit, þau Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Ellert B. Schram í Reykjavíkurkjördæmi norður og Gunnar Svavarsson og Árni Páll Árnason í Suðvesturkjördæmi. Þá sat hvorugur fulltrúa flokksins í Norðvesturkjördæmi, þeir Guðbjartur Hannesson og Karl V. Matthíasson, á þingi á síðasta kjörtímabili.

Hjá Vinstri grænum er tæpur helmginur þingflokksins skipaður nýjum andlitum, þeim Katrínu Jakobsdóttur og Árna Þór Sigurðssyni í Reykjavíkurkjördæmi norður, Álfheiði Ingadóttur í Reykjavík suður og Atla Gíslasyni í Suðurkjördæmi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×