Viðskipti innlent

Helmingur heimila í mínus

Ingimar Karl Helgason skrifar
Fjórðungur heimila eyðir mun meiru en hann aflar mánaðarlega.
Fjórðungur heimila eyðir mun meiru en hann aflar mánaðarlega.

„Þegar við skoðum neyslu, þá spyrjum við ekki hvernig hún er fjármögnuð,“ segir Guðrún R. Jónsdóttir, í vísitöludeild Hagstofunnar.

Samkvæmt rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna árin 2004 til 2006 eyðir helmingur heimila meiru en hann aflar. Sá fjórðungur þeirra sem hefur minnstar ráðstöfunartekjur að jafnaði eyðir fjórðungi meira en hann aflar. „Sumir fjármagna neyslu með lánum. Til dæmis geta námsmenn haft útgjöld sem eru meiri en sem nemur tekjunum,“ segir Guðrún.

Neysluútgjöld heimilanna hafa aukist um tæplega átta prósent á tímabilinu 2003 til 2005, samkvæmt könnun Hagstofunnar. Meðalútgjöldin voru tæplega 368 þúsund krónur á mánuði. Á sama tíma hefur meðalstærð heimila minnkað lítillega og útgjöld á mann því aukist um 9,1 prósent.

Tekjuminnsti fjórðungurinn, ríflega þrjátíu þúsund heimili, hefur að jafnaði 239.687 krónur til ráðstöfunar á mánuði. Sami fjórðungur eyðir að jafnaði 303.861 krónu á mánuði. Útgjöldin eru með öðrum orðum 126,8 prósent af ráðstöfunartekjum.

Hjá þeim fjórðungi heimila sem næstminnstar hefur tekjurnar, eru útgjöldin litlu meiri en sem nemur tekjunum.

Þetta snýst hins vegar við þegar komið er í tekjuhærri fjórðungana. Sá fjórðungur sem hefur næstmestar tekjur eyðir að jafnaði 93,5 prósentum þeirra og sá hópur sem mestar hefur tekjurnar eyðir 77,8 prósentum þeirra.

Í könnun Hagstofunnar er tekið tillit til allra heimilistekna, þar á meðal fjármagnstekna, eftir skatta. Í útgjöldunum felst meðal annars kostnaður af neysluvörum og þjónustu, leiguígildi vegna afnota af eigin íbúð, tilkynninga- og vanskilagjöld. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir félagsgjöldum og styrkjum, sektum og fasteignakaupum.

Fram kemur í rannsókn Hagstofunnar að heimili í dreifbýli eyða almennt meiru en þau afla. Útgjöldin eru 0,3 prósentustigum meiri en tekjurnar.

Heimili á höfuðborgarsvæðinu hafa almennt mestar tekjur, tæplega 410 þúsund krónur á mánuði. Heimili í þéttbýlisstöðum utan höfuðborgarsvæðisins eru að jafnaði með 364 þúsund krónur á mánuði en heimili í dreifbýli hafa innan við 350 þúsund krónur til ráðstöfunar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×