Viðskipti innlent

Hlutverk hins opinbera lítið í Alþjóðahúsinu

Einungis tuttugu og fimm prósent af tekjum Alþjóðahússins koma frá ríki og sveitarfélögum.
Einungis tuttugu og fimm prósent af tekjum Alþjóðahússins koma frá ríki og sveitarfélögum.

„Það er ekki eins og við viljum ekki aukið samstarf við hið opinbera. Það er bara sjálfsbjargarviðleitni hjá okkur að afla tekna annars staðar frá,“ segir Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahússins. Á hann þar við þá þróun að langstærstur hluti tekna Alþjóðahússins kemur frá daglegri starfsemi, svo sem túlka- og þýðingaþjónustu, íslenskukennslu og í gegnum ársfjórðungslegt rit sem fjármagnað er með auglýsingum. Ekki með opinberum framlögum eins og margir kynnu að halda. Styrkir frá fyrirtækjum í einstök verkefni eru um fimmtán prósent af tekjum.

Í Alþjóðahúsinu fer fram ýmisleg starfsemi sem ætlað er að stuðla að fjölmenningarlegum samskiptum. Þangað er hægt að sækja ýmiss konar þjónustu og fræðslu. Á fjórum árum hefur hlutfall opinberra framlaga á móti rekstrartekjum félagsins snúist við. Í dag koma um 25 prósent af tekjum Alþjóðahússins frá ríki og sveitarfélögum en 75 prósent frá innra starfi. Hlutfallið var tuttugu prósent á móti áttatíu prósentum fyrir fjórum árum, þegar Einar Skúlason tók við starfi framkvæmdastjóra Alþjóðahússins. „Skýring á þessu er ekki eingöngu að framlögin frá hinu opinbera hafi dregist verulega saman, þótt þau hafi reyndar gert það fyrir árið 2007. Hins vegar hafa umsvif okkar aukist verulega á þessu tímabili,“ segir Einar.

Einar segir að hvergi í nágrannalöndum Íslands spili ríki og sveitarfélög eins lítið hlutverk í rekstri félaga á borð Alþjóðahúsið. Hins vegar sé erfitt að bera Ísland saman við nágrannalöndin, enda sé óvíða eins víðtæka þjónustu að finna á einum stað eins og hér. „En það er vissulega einsdæmi að svona lítið hlutfall tekna komi frá hinu opinbera, hjá aðila sem gegnir ákveðnu opinberu hlutverki, eins og við gerum.“- hhs





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×