Viðskipti innlent

Frábær heilaleikfimi

Áslaug Friðriks­dóttir
Áslaug Friðriks­dóttir

„Uppáhaldið mitt í dag er Sunnudagskrossgáta Morgunblaðsins. Alveg frábær heilaleikfimi og skemmtun,“ segir Áslaug Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri veffyrirtækisins Sjá.

Hún segir að áhugamálin fyrir utan vinnuna hafi tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina. „Ég hef alltaf átt ákveðin áhugamál, svo sem að fylgjast með pólitík, synda og fara í bíó. Eitthvað sem er auðvelt án þess að þurfa að skipuleggja það sérstaklega.“

Áslaus segist hafa ferðast mikið og farið á skíði og göngur áður en börnin komu til sögunnar, en hún á nú þrjú. „Meðan börnin eru lítil og geta ekki fylgt manni í hvað sem er hefur maður þróað svona hliðaráhugamál sem hægt er að sinna heima við.“

„Það besta sem ég veit er að eiga góð stund til að sitja yfir krossgátunni og reyna við hvert orðið á fætur öðru,“ segir Áslaug brosandi og bætir því við að oft sé erfitt að slíta sig frá gátunni. „Þegar gestir koma í heimsókn er oft bara brugðið á það ráð að fá alla með í leikinn þannig að stundum situr heilt matarboð og pælir í gegnum þetta.“

Áslaug segist ekki oft ná að ljúka allri gátunni. „En ég er svo heppin að ég veit um fólk úti í bæ sem deilir áhugamálinu. Við skiptumst á vísbendingum þegar mér þykir ég hafa fullreynt eitthvað.“

Samskiptanetið í kringum gátuna sé ótrúlega stórt. „Stundum fær maður vísbendingar í gegnum langsótt og skemmtileg tengsl,“ segir Áslaug. Þar sé stríðnin stundum við völd. „Og maður fær það alveg óþvegið hversu heimskur er hægt að vera,“ segir Áslaug Friðriksdóttir og hlær.- ikh





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×