Íslenski boltinn

Harpa með sigurmarkið í upphafi leiks

Fjölnisstúlkan Íris Ósk Valmundsdóttir reynir hér skot í gær en Guðríður Hannesdóttir er til varnar.
Fjölnisstúlkan Íris Ósk Valmundsdóttir reynir hér skot í gær en Guðríður Hannesdóttir er til varnar. MYND/Valli

Stjörnustúlkur unnu nauman 1-0 útisigur á Fjölnisstelpum í Landsbankadeild kvenna í Grafarvogi í gær en fyrir leikinn voru liðin jöfn í 5. sæti með tólf stig. Breiðablik fór upp fyrir Keflavík í 3. sætið með 4-1 sigri á ÍR en Keflavíkurstúlkur geta náð sætinu aftur þegar þær taka á móti Íslandsmeisturum Vals í Keflavík klukkan tvö í dag.

Sigurmark Stjörnunnar kom strax eftir aðeins sjö mínútna leik þegar Harpa Þorsteinsdóttir fékk laglega sendingu frá Kimberley Dixson og afgreiddi boltann glæsilega í markið með vinstri fæti. Stjörnustúlkur fengu ágæt færi í leiknum til að bæta við marki en það fengu einnig Fjölnisstúlkur sem voru óheppnar að ná ekki að jafna leikinn. Stjarnan pakkaði síðan í vörn í lokin og náði að verja forystuna.

Breiðablik vann 4-1 sigur á ÍR. Greta Mjöll Samúelsdóttir kom Blikum í 1-0, Aðalbjörg Marta Agnarsdóttir jafnaði í upphafi seinni hálfleiks en þrjú mörk frá þeim Guðrúnu Sóleyju Gunnarsdóttur, Söndru Sif Magnúsdóttur og Jónu Kristínu Hauksdóttur á fjórtán mínútna kafla tryggðu Blikum stigin þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×