Viðskipti innlent

Styðja við útrás Lay Low

Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, tilkynnir um stuðning félagsins við tónlistarkonuna Lay Low á starfsmannaskemmtun félagsins um helgina. Þema samkomunnar endurspeglast í klæðaburði forstjórans.
Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, tilkynnir um stuðning félagsins við tónlistarkonuna Lay Low á starfsmannaskemmtun félagsins um helgina. Þema samkomunnar endurspeglast í klæðaburði forstjórans. Mynd/Hreinn Magnússon

Samskip hafa tilkynnt um stuðning sinn við tónlistarkonuna Lovísu Elísabetu Sigrúnardóttur, eða Lay Low eins og hún kallar sig, næstu tvö árin. Hún hefur notið vaxandi vinsælda bæði heima og erlendis og sigraði meðal annars í þremur flokkum á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrr á árinu.

Tilkynnt var um stuðninginn á starfsmannaskemmtun Samskipa um síðustu helgi, en Lay Low kom þar fram við góðar undirtektir ásamt hljómsveit. Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, greindi frá því að félagið yrði bakhjarl Lay Low næstu tvö árin og myndi aðstoða hana með ráðum og dáð við að koma sér á framfæri, bæði heima og erlendis. „Saman náum við árangri því við höfum mikla reynslu af útrás og vitum að gott er að eiga góða að,“ sagði Ásbjörn á skemmtuninni.

Stuðningur Samskipa er sagður koma sér vel fyrir Lovísu sem verður á ferð og flugi næstu mánuðina. Fyrsta tónleikaferð hennar til Bandaríkjanna fer fram dagana 27. maí til 9. júní og kemur hún fram bæði í Los Angeles og New York. Í þessari viku kemur hún hins vegar fram á tónlistarhátíðinni The Great Escape í Brighton á Englandi og í september spilar hún á Pop-komm hátíðinni í Berlín. Þá liggur leið hennar aftur til New York í október og í nóvember er fyrirhuguð vikulöng tónleikaferð um Bretland, samkvæmt upplýsingum frá Samskipum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×