Viðskipti innlent

Hörð barátta á netinu

Fortune | Tæknigaukar í Bandaríkjunum eru sagðir hafa rekið upp stór augu þegar netfyrirtækið Yahoo keypti 80 prósenta hlut í litlu netfyrirtæki í New York, Right Media, sem sérhæfir sig í gerð netauglýsinga og markaðssetningu á netinu, fyrir litlar 680 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 43,8 milljarða íslenskra króna. Þetta þýðir ennfremur að markaðsverðmæti fyrirtækisins hefur margfaldast á fáum mánuðum og hleypur nú á tugum milljarða króna. Bandaríska viðskiptatímaritið Fortunes segir verðmiða sem þennan vissulega út í bláinn en bætir því við að þetta virðist vera stefnan sem netrisarnir séu að taka vestanhafs; þeir greiði hvaða verð sem er til að koma í veg fyrir að samkeppnisaðilinn nái forskoti á netmarkaðnum. Í tilfelli Yahoo er samkeppnisaðilinn netfyrirtækið Google, sem á dögunum velti gosdrykkjarisanum Coca Cola úr toppsætinu sem verðmætasta fyrirtæki í heimi.

Hlutabréfin að klárast

Economist |
Þeir sem hug hafa á því að fjárfesta í hlutabréfum í Bandaríkjunum verða að gera það eins fljótt og auðið er, annars eiga þeir á hættu að engin bréf verði eftir á hlutabréfamarkaðnum. Þetta er ekki vegna mikils áhuga annarra fjárfesta vestanhafs heldur vegna viðamikilla kaupa fyrirtækja á eigin bréfum. Breska vikuritið Economist greinir frá því í nýjasta tölublaði sínu að uppkaup fyrirtækja á eigin bréfum nemi að meðaltali sex prósentum á ársgrundvelli og hafi aldrei verið meiri. Þessi miklu uppkaup eru gerð í skjóli methagnaðar fyrirtækjanna. Afleiðingarnar eru hins vegar þær að grynnkar á sjóðum félaganna. Helstu hlutabréfavísitölur vestanhafs hafa ekki farið varhluta af þessum uppkaupum fyrirtækjanna því nokkrar þeirra, ekki síst Dow Jones, hafa slegið hvert metið á fætur öðru.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×