Viðskipti innlent

Mjúk eða hörð stjórnun

Sif Sigfúsdóttir, MA í mannauðsstjórnun.
Sif Sigfúsdóttir, MA í mannauðsstjórnun.

Fyrirtæki eru í auknum mæli að ganga í gegnum breytingar, s.s. alþjóðavæðingu, tækninýjungar og aukna samkeppni. Margir líta í því sambandi á mannauð sem lykilþátt í samkeppnishæfni fyrirtækja og stofnana og leggja áherslu á að breyta hefðbundnum starfsmannadeildum úr deildum sem sjá um skipulag og eftirlit í mannauðsdeildir sem skapa augljóst virði innan fyrirtækja. Mannauðsstjórnun er þá borin saman við hefðbundna starfsmannastjórnun sem er af mörgum talin vera bundin kostnaðareftirliti og skrifstofuhaldi sem starfi ekki endilega í takt við stefnu fyrirtækis.

Oft velta menn vöngum yfir hvort munur sé á hefðbundinni starfsmannastjórnun og nútíma mannauðsstjórnun og hvort einhver möguleiki sé í raun á að skapa virði í hefðbundnum starfsmannadeildum. Hvort ekki sé um að ræða nýtt nafn á einum og sama hlutnum.

Meginmarkmið mannauðsstjórnunar er stjórnun í anda stefnumiðaðra vinnubragða með langtíma markmiðum þar sem fyrirtæki geti á fljótan og öruggan hátt snúið stefnu í framkvæmd. Þá er stefna mannauðsdeilda samræmd viðskiptastefnu fyrirtækisins að öllu leyti. Mannauðsstjórnun hefur einnig verið skipt í mjúka og harða stjórnun þar sem mjúk mannauðsstjórnun er tákn fyrir mannúðlega stefnu í umhverfi sem virðir tryggð, þarfir, tilfinningar og góð samskipti á meðal starfsmanna. Hörð mannauðsstjórnun stendur fyrir áherslu á að minnka kostnað með áherslu á skipulag og áætlanir þar sem full nýting er fengin úr mannauði.

Með nýju hlutverki mannauðsdeilda er nauðsynlegt að mæla árangur því deildirnar þurfa að sýna fram á virðisskapandi starfsemi sem sannarlega tekur heildarstefnu fyrirtækis með í reikninginn. Ekki er nóg að sýna fram á lækkun kostnaðar og skilvirkni heldur þarf að skilgreina hlutverk starfsmanna með tilliti til stefnu. Með áherslu á stefnumiðaða mannauðsstjórnun geta mælingar breyst úr hefðbundnum viðmiðum og mælingum sem oftast eru tengdar kostnaði við ráðningar eða kostnaði við þjálfun, yfir í mælingar sem sýna prósentuhlutfall þeirra starfsmanna sem hafa fengið þjálfun, prósentuhlutfall starfsmanna

sem mælast hjálplegir við viðskiptavini eða hversu margir starfsmenn eru stundvísir svo dæmi séu tekin.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×