Gagnrýni

Eulogy for Evolution - Þrjár stjörnur

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar
Eulogy for Evolution - Ólafur Arnalds
Eulogy for Evolution - Ólafur Arnalds

Góðar plötur með klassískri tónlist frá tónlistarmönnum sem áður reru á önnur mið hafa vakið lukku hér á klakanum að undanförnu. Nægir þar að nefna Jóhann Jóhannsson, Lost in Hildurness (Hildur Guðnadóttir úr múm og Stórsveit Nix Noltes) og Barða Jóhannsson. Nýjasta viðbótin er hinn ungi og efnilegi Ólafur Arnalds sem meðal annars hefur unnið mikið með Þóri, til dæmis með honum í sveitinni Fighting Shit.

Eulogy for Evolution hefst á tregafullum strengjum sem gefa tóninn um það sem koma skal. Í kjölfarið fylgir einfalt píanóspil og má segja að hér sé komið meginstef plötunnar; fallegir og drama-tískir strengir sem fléttast við mínímalískan og brothættan píanóundirleik. Greinilegt að Ólafur hefur leitað í smiðjur annara míní-malískra tónskálda á borð við Arvo Pärt, Philip Glass og Henryk Górecki.

Platan skiptist í nokkra hluta en spilast þó sem ein heild. Ólafur sýnir og sannar á plötunni að hann er efnilegur tónlistarmaður og hefur yfir miklum hæfileikum að ráða enda semur hann öll lögin, útsetur þau og vinnur. Lagasmíðarnar eiga þó vafalítið eftir að þróast og oft finnst manni eins og Ólafur sé ekki að fara alla leið. Nokkur stef hans byrja undurfallega, byggjast síðan hægt upp en dempast síðan niður og fölna. Heildarútkoman hefur þó að geyma töluvert fleiri plúsa en mínusa.

Undir lokin tekur platan hins vegar óvænta stefnu og allt í einu byrja lostafullar trommur að hljóma, svolítið í anda japönsku sveitarinnar Mono og einnig Explosions in the Sky. Lokamínúturnar innihalda einnig dynjandi rafmagnsgítar. Furðulegt skref hjá Ólafi og í raun illskiljanlegt. Eins og verið sé að brjóta upp formið eingöngu til þess að brjóta upp formið. Virkar ekki alveg nógu vel og er í raun hálf tilgangslaust en þó nokkuð athyglisvert. Platan í heild sinni er samt hin fínasta frumraun og innst inni vona ég og er nærri því viss um að Ólafur eigi meira inni, sem er alltaf gott fyrir tón-listarmenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×