Viðskipti innlent

Hvað vill Sampo?

Björn Wahlroos Vill að Sampo taki þátt í samþjöppun á norrænum fjármálamarkaði.
Björn Wahlroos Vill að Sampo taki þátt í samþjöppun á norrænum fjármálamarkaði.

Björn Wahlroos, forstjóri Sampo Group, hefur sagt að Sampo muni gera sig gildandi við þá samþjöppun sem spáð er að verði á norrænum fjármálamarkaði eins og annars staðar í Evrópu. Exista er nú orðinn stærsti hluthafinn í Sampo eins og kemur fram annars staðar á síðunni.

Björn hefur lýst því yfir að félagið hafi áhuga á að eignast fimmtungshlut sænska ríkisins í Noreda, stærsta fjármálafyrirtæki Norðurlanda, sem kann að verða seldur þegar á þessu ári. Sampo er nú þegar meðal tíu stærstu hluthafa í Noreda eftir umtalsverð kaup fyrir áramótin.

Liður í því að styrkja Sampo Group undir landvinninga var að selja bankahluta samsteypunnar í Finnlandi til Danske Bank fyrir hátt yfirverð, um 350 milljarða króna.

Björn er ekki einvörðungu áhrifamikill forstjóri því hann er einnig meðal stærstu eigenda í Sampo.

Wallenberg áhugasamur

Fleiri en Sampo horfa girndaraugum til hlutar sænska ríkisins í Nordea. Þannig hefur Jakob Wallenberg, stjórnarformaður Investor, fjárfestingararms Wallenberg-fjölskyldunnar, lýst yfir áhuga á að kaupa hlutinn. Investor er stærsti hluthafinn í Skandinaviska Enskilda Banken (SEB) og horfir til þess að sameina Nordea og SEB og bregðast þannig við útþenslustefnu Danske Bank á Norðurlöndunum.

Stjórnendur Nordea hafa lýst yfir áhuga sínum að sameinast samkeppnisaðilanum í SEB.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×