Innlent

Níðstöng veldur vandræðum

Bóndinn í Otradal við Bíldudal hefur reist manni í plássinu níðstöng með áfestum kálfshausi og ósk um útlegð eða dauða. Þetta er gert til að hefna hvolps sem varð fyrir átta tonna dráttarvél fyrir ári síðan og drapst. Sá sem varð fyrir níðinu varð hefur kært málið til lögreglu sem morðhótun.

Sjaldgæft er á síðari tímum að menn reisi níðstangir þó það hafi verið siður á Sturlungu. Bregður svo við að Þorvaldur Stefánsson, bóndi í Otradal hefur reist eina slíka í landi sínu og blasir hún við frá þjóðveginum. Má rekja þessa níðstöng til þess að fyrir ári varð Óskar Björnsson, sem býr á Bíldudal, fyrir því óláni að aka yfir hvolp sem Þorvaldur bóndi átti. Taldi hann að þetta væri viljaverk og hafa deilur milli þeirra magnast síðan.

Á dögunum slátraði Þorvaldur bóndi tveimur kálfum en hausinn á öðrum skóf hann og setti á níðstöngina. Á hana eru rist þessi mergjuðu orð: "Hér set ég upp níðstöng og sný þessu níði að Óskari Björnssyni. Sný ég þessu níði á landvættir þær er land þetta byggja, svo að allar fari þær villu vegar. Engi hendi né hitti sitt inni, fyrr en þær reka Óskar Björnsson úr landi eða gangi að honum dauðum." Undirritað Þorvaldur Stefánsson, Otradal.

Óskar Björnsson hefur kært Þorvald til lögreglu fyrir morðhótun. Að sögn lögreglunnar á Patreksfirði verður talað við manninn, en ekki er ljóst til hvaða aðgerða verður gripið þar sem ekki er liggur fyrir hvernig bregðast skuli lögum samkvæmt við níðstöngum í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×