Gagnrýni

Söknuður - 4 stjörnur

Trausti Júlíusson skrifar
Söknuður - Jóhann Helgason
Söknuður - Jóhann Helgason
Söknuður hefur að geyma nýjar upptökur af sextán þekktum lögum eftir Jóhann Helgason. Jóhann á ógrynni laga sem hafa náð miklum vinsældum ýmist í flutningi hans sjálfs og þeirra hljómsveita sem hann hefur verið meðlimur í eða í flutningi annarra. Hér syngur Jóhann lögin öll sjálfur við undirleik Jóns Ólafssonar píanóleikara, Guðmundar Péturssonar gítarleikara, Friðriks Sturlusonar bassaleikara og Jóhanns Hjörleifssonar trommuleikara. Útsetningar eru eftir Jón Ólafsson.

Það orkar oft tvímælis þegar tónlistarmenn gera heilar plötur með nýjum útgáfum af gömlum smellum. Oftar en ekki vantar neistann í nýju upptökurnar jafnvel þó að öll vinna í kringum þær sé til fyrirmyndar og maður skilur ekki af hverju gömlu sígildu upptökunum var ekki frekar bara safnað saman til útgáfu. Söknuður fellur ekki í þennan flokk „óþarfa“ endurvinnsluplatna bæði vegna þess að hér eru nýjar útsetningar á ferðinni og vegna þess að mörg þessara laga hafa ekki komið út með Jóhanni sjálfum áður.

Jóhann Helgason er einn af okkar fremstu lagasmiðum eins og heyrist glöggt þegar hlustað er á þessa plötu. Hún er stútfull af flottum lagasmíðum. Á meðal laga eru Yaketty Yak Smacketty Smack, Poker, She’s Done It Again, Sail on, Ástin og lífið, Í Reykjavíkurborg, Ástin mín ein, Karen Karen og titillagið Söknuður. Allt frábær lög sem við þekkjum í flutningi jafn ólíkra flytjenda og Þú og ég, Vilhjálms Vilhjálmssonar, Björgvins Halldórs­sonar og Magnúsar og Jóhanns.  

Útsetningar Jóns Ólafssonar eru hættulega nálægt því að vera karakterlaust „easy-listening“ miðjumoð, en söngur Jóhanns lyftir þeim á hærra plan. Það er hrein unun að hlusta á þessa mjúku og viðkvæmnislegu en á sama tíma töffaralegu söngrödd og það verður að segjast Jóni til hróss að söngurinn nýtur sín til fulls í þessum útsetningum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×