Viðskipti innlent

Avion verður óskabarnið

Stjórn Avion Group leggur það til fyrir hluthafafund félagsins að nafni þess verði breytt í Hf. Eimskipafélag Íslands sem rekur sögu sína aftur til upphafs fyrri heimsstyrjaldar. Eftir að Avion seldi á dögunum eignarhluti fyrir milljarða króna eru um þrír fjórðu hlutar af starfsemi fyrirtækisins bundnir í Eimskip. Í febrúar árið 2004 var heiti móðurfélagsins Hf. Eimskipafélag Íslands breytt í Burðarás við breytingu á stefnu félagsins frá því að vera flutningafélag yfir í fjárfestingafélag. Eimskip varð dótturfélag Burðaráss, er sinnti hreinni skipastarfsemi. Einn helsti hvatamaður þessara breytinga var Björgólfur Thor Björgólfsson, þáverandi stjórnarformaður Eimskipafélagsins, sem nú hefur tekið sér stóra stöðu í Avion Group ásamt fleiri fjárfestum í gegnum Gretti. Sagan gengur í hringiÞótt Burðarás hafi síðar selt Eimskip til Avion var augljóst að stjórnarformaðurinn hafði mikla trú á Eimskip: „Flutningastarfsemi, hvaða nafni sem hún nefnist, á bjarta framtíð fyrir höndum og verður ánægjulegt að fylgjast með hvernig félagið mun virkja hina miklu og verðmætu reynslu og þekkingu starfsfólks félagsins, nær og fjær, til að takast á við áskoranir vaxandi alþjóðlegrar samkeppni," sagði Björgólfur Thor í ræðu á aðalfundi Eimskips 2004. Þetta sögufræga skipafélag hefur verið á blússandi siglingu á þessu ári, tekið yfir þrjú fyrirtæki á skömmum tíma, stefnir í eitt hundrað milljarða króna veltu á næsta ári og tekur brátt yfir franska nafnið Avion.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×