Viðskipti innlent

Peningaskápurinn ...

Auðkýfingar ásælast Bond-bílinn

Franski auðkýfingurinn Bernard Arnault og belgíski milljarðamæringurinn Albert Frere eru sagðir íhuga að stofna fjárfestingasjóð sem mun meðal annars kaupa framleiðslu á Aston Martin-bílum frá bandaríska bílaframleiðandanum Ford.

Bílarnir eru breskir og hefur kvennagullið og njósnari hennar hátignar, James Bond, ekið um í bifreiðum frá Aston Martin í nokkrum kvikmyndum um ævintýri hans, síðast í Die Another Day, sem tekin var upp að hluta hér á landi. Arnault og Frere eru með ríkustu mönnum Evrópu. Arnault er sjöundi ríkasti maður í heimi samkvæmt bandaríska viðskiptatímaritinu Forbes en Frere er ríkasti maður í Belgíu. Í fjárfestingasjóðnum verður einn milljarður evra, ríflega 86 milljarðar íslenskra króna.

Sony hugsar um neytendurnaSony beitir nú öllum ráðum til að koma í veg fyrir að leikjatölvan PlayStation 3 berist strax til Evrópu. Tölvan fer hins vegar á markað í Japan og Bandaríkjunum í næsta mánuði, en á ekki að koma til Evrópu fyrr en í mars. Harðir leikjatölvuunnendur sem hér hafa beðið óþreyjufullir eru því skiljanlega sárir yfir því að verða með þeim síðustu til að fá leikjatölvuna. Talsmaður Sony segir fyrirtækið hins vegar bera hag neytenda fyrir brjósti, ekki sé enn hægt að spila leiki fyrir eldri útgáfur í þeirri nýju, auk þess sem ekki sé hægt að spila Blu-ray diska, sem gefnir hafa verið út í Evrópu í leikjatölvum frá Bandaríkjunum og Japan. Þeir sem keypt hafi tölvu þaðan og reyndu að nota í Evrópu sætu því uppi með leikjatölvu sem þeir gætu ekki notað. Í mars á hins vegar að vera búið að búa þannig um hnútana að tölvan ráði við evrópsku Blu-ray diskana.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×