Gagnrýni

Brennslan

Egill Helgason skrifar
Mér finnst alltaf voða hallærislegt þegar menn segjast vera alætur á tónlist, en samt er ég það nokkurn veginn. Má segja að ég sé hinn dæmigerði áhugamaður - dilettanti eins og það heitir á útlensku - hef snoðrænu af ýmsu en ekki sérþekkingu á neinu. Yfirleitt hallast ég þó að tónlist sem hefur góðar melódíur – konan mín segir að ég hafi óþolandi væminn smekk.







Van Morrison: The Philosophers Stone. Ég fór fyrst að hlusta á Van 1977, enskur vinur minn kynnti mig fyrir honum. Ég hef farið nokkuð oft á tónleika með honum, tvívegis í litlu þorpi út við landamæri Wales. Þetta er frekar nýlegt lag eftir hann, seiður sem vinnur á við hverja hlustun. Van er mistækur, en hann má eiga að hann lifir ekki á að spila gamla stöffið aftur og aftur.



Maria Muldaur: Midnight at the Oasis. Snilldarlegt popplag með bráðsnjöllum texta, til í nokkrum útgáfum. Þetta er hin upprunalega. Annars veit ég ekkert um Muldaur. Held hún hafi verið hippatýpa í síðu pilsi, af þeirri tegund tónlistarmanna sem nefndist "singer/songwriter" á árunum upp úr 1970.



Bob Dylan: Jokerman. Þetta er frá 1983, á tímabili þegar Dylan er ekkert sérlega hátt skrifaður. Það er sagt að lagið fjalli um Jesú. Ég fékk að kynna Dylan á tónleikum í Höllinni nokkrum árum síðar.



The Verve: Bittersweet Symphony. Ég er ekkert sérlega vel inni í nýrri tónlist, en þetta er flott lag. Mér er sagt að höfundurinn hafi fengið mikilmennskubrjálæði.



The Who: Pure and Easy. Einfaldlega flottasta rokkbandið. Verð aldrei leiður á þeim.



Paul McCartney: Maybe I´m Amazed. Ég hef verið Bítlamaður frá blautu barnsbeini, eiginlega alveg frá því ég man eftir mér. Ég var þriggja ára þegar Bítlarnir urðu frægir, það var áfall þegar þeir hættu þegar ég var tíu ára. Þetta lag hefði getað sómt sér á hvaða Bítlaplötu sem er, var á fyrstu sólóplötu McCartneys.



Miles Davis: Flamenco Sketches. Þetta er af Kind of Blue, kannski ofspiluðustu djassplötu allra tíma. Hún er samt snilldarverk. Spilamennskan er falleg og seiðandi, Davis og meðspilarar hans eru í ótrúlega nánu sambandi við sjálfa uppsprettu tónlistarinnar þannig að úr verður næstum dulræn reynsla. Það var eitthvað mjög merkilegt að gerast þarna í stúdíóinu hjá þeim. Ég spila þetta lag á jólunum.



Robert Schumann: Píanókonsert. Fyrir nokkrum árum var ég að leita að klassískri tónlist sem gæti hrifið mig. Var orðinn leiður á flestu sem ég átti. Fór þá að hlusta á Schumann, þetta rómantíska séní.



Nana Mouskouri & Harry Belafonte: Ereni. Ég læt fljóta með eitt grískt lag. Þetta er bráðfjörugt og grípandi, samið af tónskáldinu Manos Hadidakis. Belafonte stendur sig vel í grískunni, sýnir þannig hvað hann er sannur heimsborgari. Ég stend í þeirri trú að ef ég geti lært texta við nokkur grísk lög muni ég taka miklum framförum í tungumálinu.



Curtis Mayfield: People Get Ready. Þegar ég var að alast upp var gullaldartíð soultónlistarinnar, músíkin sem kom úr svertingjahverfum bandarískra borga var ótrúlega frjó. Það er erfitt að velja eitt lag frekar en annað, en þetta er meistarastykki hjá söngvara sem margir hafa hermt eftir. Minnir líka á mannréttindabaráttu svartra í Ameríku sem var á sama tíma.



Birtist í Birtu föstudaginn 19. ágúst 2005. Þetta er smávegis lengri útgáfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×