Viðskipti innlent

Frosti skattakóngur Íslands

Upplýsingar um álagningu opinberra gjalda detta nú inn úr hverju umdæminu af öðru og er það hin forvitnilegasta lesning. Skattakóngur Reykjavíkur er Frosti Bergsson sem greiðir samtals tæpar 123 milljónir króna. Í öðru sæti er Vilhelm Róbert Wessmann með tæpar 107 milljónir króna, í þriðja sæti Björgólfur Guðmundsson, einnig með tæpar hundrað og sjö milljónir króna, og í fjórða sæti Jón Ásgeir Jóhannesson með rétt tæpar eitt hundrað milljónir króna.

REYKJANESUMDÆMI

Skattakóngur í Reykjanesumdæmi er Arngrímur Jóhansson, flugstjóri og stofnandi Atlanta, sem greiðir tæplega eitt hundrað og tvær milljónir króna. Næst honum er Nanna Renate Möller í Mosfellsbæ sem greiðir rúmar fjörutíu og sjö milljónir og í þriðja sæti Guðmundur R. Hallgrímsson Reykjanesbæ með rúmlega fjörutíu og eina milljón króna.

VESTURLAND

Á Vesturlandi greiðir Eiríkur Helgason Snæfellsbæ hæstu gjöldin, tæpar tuttugu og fjórar milljónir króna. Í öðru sæti er Ólafur Ólafsson, Eyja- og Miklaholtshreppi, með tæpar nítján milljónir króna. Í þriðja sæti Kristinn Jónsson Stykkishólmi með fjórtán og hálfa milljón króna.

VESTFIRÐIR

Skattakóngur Vestfjarða er Finnbogi Jakobsson í Bolungarvík sem greiðir tæplega þrettán milljónir króna. Snorri Sturluson á Suðureyri greiðir tæpar ellefu milljónir króna og í þriðja sæti er Jakob Ólafsson á Ísafirði með rúmlega sex milljónir króna.

NORÐURLAND VESTRA

Á Norðurlandi vestra greiðir Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri á Sauðárkróki, tæplega níu milljónir króna. Í öðru sæti er Jón Eðvald Friðriksson með tæplega sjö milljónir króna og í þriðja sæti er Ómar Ragnarsson, læknir á Blönduósi. með rúmar sex milljónir króna.

NORÐURLAND EYSTRA

Það kemur líklega ekki á óvart að Þorsteinn Már Baldvinsson er skattakóngur á Norðurlandi eystra með rúmlega sautján milljónir króna. Númer tvö er Eiríkur S. Jóhannsson á Akureyri með rúmlega sextán milljónir króna og í þriðja sæti er Jóhannes Jónsson Bónusforingi með rúmar fjórtán milljónir króna.

AUSTURLAND

Á Austurlandi er hæst Kristín Guttormsson í Neskaupstað með tæpar níu milljónir króna. Hannes Sigmarsson á Eskifirði greiðir rúmlega sjö og hálfa milljón og í þriðja sæti er Björn Magnússon í Neskaupstað sem greiðir tæplega sjö og hálfa milljón króna.

SUÐURLAND

Á Suðurlandi greiðir hæstu gjöldin Guðmundur A. Birginsson Ölfusi tæpar fjörutíu og þrjár milljónir króna. Í öðru sæti er Óskar Magnússon í Rangáarþingi eystra með tæplega tuttugu og sex milljónir króna og í þriðja sæti er Gunnar A. Jóhannsson Rangárþingi ytra sem greiðir tuttugu og tvær milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×