Viðskipti innlent

Stóðum við skuldbindingar

Hlutabréf þýska bankans Hauck & Aufhäuser í Búnaðarbankanum og síðar KB banka voru færð í reikninga fyrirtækisins meðan þau voru í eigu hans segir í yfirlýsingum frá Peter Gatti, framkvæmdastjóra Hauck & Aufhäuser, sem hann sendi frá sér í gærkvöldi. Yfirlýsingin er svar stjórnenda bankans við gagnrýni Vilhjálms Bjarnasonar aðjúnkts við Háskóla Íslands, sem hefur sagt að Fjármálaeftirlitið hafi verið blekkt þar sem S-hópurinn hafi í raun ráðið þeim hlut sem Hauck & Aufhäuser var skráður fyrir. Í yfirlýsingu Við lýstum því yfir í upphafi að við kæmum að þessu sem hvati að einkavæðingu í íslenska bankakerfinu segir Gatti í yfirlýsingu sinni. Hann bætir því við að þeir hafi staðið við skuldbindingar sínar og gott betur. Gatti segir það valda sér vonbrigðum að efasemdum hafi verið sáð um heilindi bankans og að hann hafi verið dreginn á neikvæðan máta inn í umræðu um einkavæðingu á Íslandi. Þýski bankinn keypti 16,3 prósent í Búnaðarbankanum og var haft eftir Ólafi Ólafssyni, sem var í forsvari fyrir kaupendur bankans, í Fréttablaðinu í kjölfar sölunnar, að gott væri að fá það aðhald sem fylgdi eign þýska bankans í Búnaðarbankanum. Félag í eigu Ólafs hefur nú keypt bréf þýska bankans í KB banka en Kaupþing og Búnaðarbanki sameinuðust fáeinum mánuðum eftir einkavæðinguna. Bankinn, sem um ræðir, er banki sem hafði heldur minna af eignum en Búnaðarbankinn við söluna. Eigið fé hans var um 9 milljarðar íslenskra króna en eigið fé Búnaðarbankans á sama tíma um 13 milljarðar. Framkvæmdastjóri þýska bankans, Peter Gatti, kom hingað til að undirrita samninga en bankinn hefur nú selt bréf sín eins og áður segir og hefur varist allra frétta í skjóli bankaleyndar af viðskiptum sínum með bréf í Búnaðarbankanum.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×