Innlent

Endurskipulagning hefst í haust

Það er tímabært að breyta skipan ráðuneyta. Endurskipulagning hefst í haust og á að ljúka á sem skemmstum tíma. Þetta var meðal þess sem Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði í morgun í sínu fyrsta þjóðhátíðarávarpi. Halldór kom víða við í ræðu sinni í dag. Hann byrjaði til dæmis á að tala heilmikið um muninn á úrtölumönnum og bjartsýnismönnum í smafélaginu. Forsætisráðherra varð einnig tíðrætt um hversu mjög íslensku samfélagi hefði fleygt fram á síðustu árum og áratugum með auknu frelsi og velmegun. En hann sagði jafnframt að frelsinu fylgdu skyldur og ábyrgð sem fyrirtækjum bæri að axla með hinu opinbera, sérstaklega gagnvart starfsmönnum. Halldór sagði fyrirtækjunum bera að nýta hagnað til að byggja upp. „Það er eðlilegt að þau taki þátt í mikilvægum málum á sviði menningar og velferðar,“ sagði Halldór. „Þeim ber ekki síst að leggja fram fjármuni til að efla nýsköpun og fjölbreytni í atvinnulífi. Þar geta þau lagt meira af mörkum, ekki síst stærstu fjármálafyrirtæki landsins.“ En það sem vakti mesta athygli í máli Halldórs í dag var sú yfirlýsing hans að í haust standi fyrir dyrum meiriháttar breytingar á stjórnsýslunni. Forsætisráðherra vill gera hana „markvissari“ og „meira í takt við tímann“. Hann sagði síðustu stóru breytinguna á skipan ráðuneyta hafa verið gerða árið 1969 og skipulagið í grundvallaratriðum verið óbreytt síðan. Hann sagði því mikilvægt að hefjast handa við endurskoðun í haust og ljúka henni á tiltölulega stuttum tíma. Halldór kvaðst vilja einfalda ríkisreksturinn og gera hann skilvirkari og markvissari.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×