Sport

TuS Weibern bjargað frá gjaldþroti

Fjárhagsvandræði Íslendingaliðsins TuS Weibern - sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar og landsliðskonurnar Jóna Margrét Ragnarsdóttir, Sólveig Kjærnested og Dagný Skúladóttir leika með - leystust í gær þegar félagið gekk frá nýjum styrktarsamningum. Fyrir vikið fengu allir starfsmenn félagsins greidd laun en enginn hafði fengið krónu í tæpa þrjá mánuði. "Það er óhætt að segja að þetta sé mikill léttir fyrir alla aðila," sagði Aðalsteinn í samtali við Fréttablaðið í gær en hann hafði gefið félaginu frest til 26. febrúar til þess að greiða honum það sem hann átti inni hjá félaginu. Að öðrum kosti væri hann farinn heim. "Þessar fréttir koma á góðum tíma og nú er loksins ljóst að við getum klárað tímabilið," sagði Aðalsteinn en Weibern vann langþráðan sigur um helgina og á góða möguleika á að halda sér uppi í efstu deild. "Það eru allir mun bjartsýnni núna og stefnan er að tryggja sætið í deildinni. Það væri gaman að skilja við félagið í efstu deild því ég er enn ákveðinn í því að koma heim og fara í nám," sagði Aðalsteinn sem mun þjálfa kvennalið FH næsta vetur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×