Innlent

Samninganefndinni ekki skipt út

Formaður Kennarasambands Íslands telur ekki tímabært að skipta út samninganefnd kennara. Þá segir hann það í hendi sveitarfélaganna hvort börnum verði bættur upp sá námstími sem tapast í yfirstandandi verkfalli. Forystumenn samningsaðila bundu miklar vonir við samninginn sem gerður var árið 2001. Guðrún Ebba Ólafsdóttir, sem þá var formaður Félags grunnskólakennara, sagði hann mjög merkilegan og vinnubrögð við gerð hans til eftirbreytni. Um þessar mundir er þó megn óánægja meðal kennara með þennan sama samning. Lækkun á kennsluskyldu sé ekki virk og sveitarfélög fái yfirvinnu innta af hendi frá kennurum án þess að greiða fyrir, svo fátt eitt sé nefnt. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir framkvæmd núgildandi samnings ekki í takt við það sem rætt hafi verið um við samningaborðið síðast. Að hluta til sama fólk skipar samninganefndina og síðast að sögn Eiríks. Spurður hvort tími sé kominn á að skipt verði um fólk í brúnni segist formaðurinn ekki álíta svo hvað varðar fólkið sem hann sé að vinna með. Varðandi sjálfan sig kvaðst hann ekki geta svarað spurningunni.   Eiríkur segir engin ný útspil í undirbúningi af hálfu kennara fyrir næsta samningafund deilenda sem verður á fimmtudag. „Við erum ekki tibúin að víkja frá okkar kostnaðarramma á meðan sveitarfélögin hreyfa sig ekkert, og engin hreyfing hefur átt sér stað síðan í maí,“ segir Eiríkur. Formaðurinn kveðst ekki vita hversu langt verkfallið verði og segist ekki sjá fyrir sér hvort til greina komi að bæta börnunum upp missi úr skóla með kennslu næsta sumar. Það sé í hendi sveitarfélaganna en kennarar muni alla vega ekki vinna upp verkfallið í frívinnu.  


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×