Innlent

Gamalt ákvæði í nýju frumvarpi

Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað leyfi til útvarpsrekstrar áður en útvarpsleyfi falla úr gildi, verði skilyrðum um eignarhald ekki mætt innan þriggja ára, samkvæmt nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta ákvæði var fellt úr fyrra frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Formaður Framsóknarflokksins sagði þá, að hann væri öruggari með að frumvarpið stæðist stjórnarskrá. Þetta ákvæði var numið úr gildi að kröfu Framsóknarflokksins í fyrra frumvarpinu, milli annarar og þriðju umræðu um miðjan maí og formaður flokksins sagði að hann teldi breytingarnar til mikilla bóta. Þær sneru að tveimur atriðum, fyrirtæki máttu eiga 35 prósent í fjölmiðlafyrirtæki en hlutfallið var 25 prósent áður. Hin breytingin sem formaðurinn tiltók sem sérlega mikilvæga, var að núverandi útvarpsleyfi rynnu ekki út fyrr en eftir gildistíma sinn og aldrei fyrr en eftir tvö ár. Hann sagðist vera öruggari með frumvarpið með tilliti til stjórnarskrárinnar eftir breytingarnar. Það kemur því talsvert á óvart vegna þessarar yfirlýsingar að samkvæmt frumvarpinu núna getur útvarpsréttarnefnd afturkallað útvarpsleyfi þegar lögin öðlast gildi ef markmiðum laganna um eignarhald hefur ekki verið náð fyrir þann tíma. Þótt þau séu ekki runnin út. Á móti kemur að gert er ráð fyrir aðeins lengri aðlögunartíma í nýja frumvarpinu en lögin taka ekki gildi fyrr en fyrsta september árið 2007. Kristinn H. Gunnarsson var eini stjórnarþingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn fjölmiðlalögunum og hann segir að andstaða sín við þau sé óbreytt. Hann var ekki viðstaddur þingflokksfund Framsóknarflokksins í gær og segist enn vera að kynna sér nýja frumvarpið og vilji ræða við formanninn og þingflokkinn á morgun áður en hann tjái sig um málið.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×