Innlent

Harkaleg viðbrögð andstöðunnar

Stjórnarandstaðan og hagsmunaaðilar hafa brugðist harkalega við þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að afturkalla fjölmiðlalögin, og leggja fram nýtt frumvarp með nokkrum breytingum. Talsverð átök hafa verið innan ríkisstjórnarinnar um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu. Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn greindi á um vægi atkvæða. Sjálfstæðismenn vildu miða við að 44 til 50 prósent atkvæðisbærra manna þyrti til að fella frumvarpið, en framsóknarmenn vildu hæst hafa mörkin 30 prósent. Margir framsóknarmenn voru reyndar á móti hverskonar takmörkunum. Niðurstaðan varð svo sú að frumvarpið skyldi dregið til baka, á þinginu sem hefst í dag. Jafnfram var kynnt nýtt frumvarp sem er í meginatriðum eins og hið fyrra, en með tveim undantekningum þó. Halldór Ásgímsson, utanríkisráðherra, neitar því raunar, að þetta hafi verið gert vegna þess að ekki hefði hægt að ná samkomulagi um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu. Hámarks eignarhlutur markaðsráðandi fyrirtækja, í ljósvakamiðli var hækkaður um helming, úr fimm prósentum í tíu. Einnig var gildistaka laganna færð aftur til ársins 2007, að afloknum alþingiskosningum. Þess utan hefur stjórnarandstöðinni verið boðið að eiga sæti í fjölmiðlanefnd, sem fjalli nánar um málið. Þetta telur ríkisstjórnin svo veigamiklar breytingar að enginn vafi ætti að leika á því að forsetinn undirriti hin nýju lög. Ekki eru allir á sama máli um að nýja frumvarpið geti leitt til samstöðu og sátta.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×