Viðskipti innlent

Velgengni KB eykur hagvöxt

Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra segist vera glöð yfir velgengni KB banka á erlendri grundu sem hún telur að eigi eftir að auka hagvöxt hér á landi. Henni þykir ólíklegt að tvöföldun KB banka í gær auki líkur á sameiningu Landsbanka og Íslandsbanka. KB banki keypti í gær danska bankann FIH sem talinn er leiðandi í fyrirtækjalánum í Danmörku. Kaupverð var 84 milljarðar króna en við það má bæta um 26 milljarða króna arði sem seljendur halda eftir. Með kaupunum er KB banki orðinn níundi stærsti banki á Norðurlöndunum. Hlutabréf í bankanum hafa hækkað um 16% í Kauphöll Íslands frá því að tilkynnt var um kaupin. „Mér finnst þetta mjög ánægjulegt. Þetta eykur hagvöxt í landinu og ég er því glöð yfir þessum tíðindum,“ segirValgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra og bætir við að KB banki sé með framsæknustu fyrirtækjum. Talað hefur verið um að stækkun hans auki líkur á sameiningu Landsbanka og Íslandsbanka. Guðmundur Sigurðsson hjá Samkeppnisstofnun segir að komi til þess yrði að líta á stöðu banka á heimamarkaði sérstaklega. Aðspurð hvort kaup KB banka greiði fyrir sameiningu Landsbanka og Íslandsbanka segir Valgerður að ef svo færi, yrði það skoðað mjög alvarlega af hálfu samkeppnisyfirvalda. Skoða þyrfti hvort slíkt stæðist samkeppnislög og þýddi ekki of mikla samþjöppun á fjármálamarkaði. Eins og staðan væri í dag væri hins vegar þó nokkur breidd á þessum markaði og ekki hægt að tala um fákeppni. 




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×