Innlent

Fyrstu 50 dagar ársins þeir vindasömustu frá 1995

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lítið hlé á milli lægða hefur einkennt veðráttuna.
Lítið hlé á milli lægða hefur einkennt veðráttuna. VÍSIR/STEFÁN
50 fyrstu dagar ársins 2015 eru þeir vindasömustu frá árinu 1995 með meðalvindhraða upp á meira en 10 metra á sekúndu.

Þetta sagði Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni ehf., þegar HB Grandi fékk hann til rýna í veðrið nú í upphafi ársins og bera það saman við veðráttuna á sama árstíma undanfarin ár.

„Þetta er mikill meðalvindhraði og aðeins sama tímabil 2008 kemst nálægt því frá árinu 1995,“ sagði Einar.

Einar sagðist hafa valið þann kostinn að horfa til vindhraða og vindátta og við samanburðinn hafi hann stuðst við veðurupplýsingar frá Garðskaga frá upphafi mælinga þar árið 1995 og fram til 18. febrúar síðastliðinn. Sá staður sé á berangri úti við sjó og hafi því ekkert skjól af fjöllum í ákveðnum vindáttum.

Einar segir tíðni vestan- og suðvestanátta skera sig úr. „Tíðni þeirra vindátta er nú 55 prósent sem er mun meira en í meðalári.

Það er oft rætt um að veturinn 2000 hafi einkennst af þrálátum vestan- og suðvestanáttum en munurinn er sá að vindurinn þá var markvert hægari en nú, enn og aftur miðað við Garðaskaga.“

Að sögn Einars hefur það einkennt veðráttuna frá áramótum að lítið hlé hafi verið á milli lægða og þær hraðskreiðar og krappar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×