Innlent

Fyrsti pólski geimfarinn heimsótti landa sína á Íslandi

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Pólverjar búsettir á Íslandi fjölmenntu til að hitta fyrsta og eina geimfara Póllands sem var í heimsókn hér á landi. Geimfarinn segir það langþráðan draum að koma til Íslands - landsins sem hann sá utan úr geimnum.



Pólverjinn Mirosław Hermaszewski hefur dvalið hér á landi síðustu daga. Hann er þjóðþekktur í Póllandi enda fyrsti og eini Pólverjinn sem hefur farið út í geim. Það gerði hann árið 1978 þegar hann fór með rússneska geimfarinu Soyuz 30 og dvaldi í tæpa átta sólarhringa í rússneskri geimstöð. Fyrir geimferðina fékk Hermaszewski æðstu orðu sem veitt er hermanni í Sovétríkjunum.

Hermaszewski er 72 ára gamall og hélt hann fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík í gær þar sem hann fræddi samlanda sína og Íslendinga um geimferðina. Pólverjar á Íslandi fjölmenntu. Hermaszewski sagði að ekki væri langt þangað til að Pólverjar eignuðust fleiri geimfara.

„Eftir mína ferð út í geim þá var ég mjög bjartsýnn. Ég held að eftir þrjú ár þá muni næsti Pólverji fara út í geim. Það eru liðin 36 ár og enginn hefur enn farið. Ég er samt vongóður,“ segir Hermaszewski.

Draumur að rætast

Um 9.000 Pólverjar eru búsettir á Íslandi. Hermaszewski segir að það hafi lengi staðið til að heimsækja Ísland.

„Ég veit að það búa margir Pólverjar hér og að þeim líður vel hér á Íslandi. Ég vildi koma hingað og hitta Pólverja búsetta á Íslandi,“ segir Hermaszewski.

„Það hefur verið draumur minn að koma til Íslands, að sjá þetta fallega land. Ég sá Ísland úr geimnum og þess vegna ákvað ég að koma hingað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×