Erlent

Fyrst til að greiða atkvæði gegn frumvarpi á kúbverska þinginu

Atli Ísleifsson skrifar
Mariela Castro er mikill baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra.
Mariela Castro er mikill baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra. Vísir/AFP
Kúbverska þingkonan Mariela Castro greiddi nýlega atkvæði gegn frumvarpi um nýjar reglur gegn mismunun á vinnustöðum. Þetta ku vera í fyrsta sinn sem þingmaður greiðir atkvæði gegn tillögu á kúbverska þinginu.

Í frétt Guardian kemur fram að Castro, sem er dóttir Raul Castro Kúbuforseta, þótti tillagan ekki ganga nógu langt þar sem frumvarpið náði ekki til HIV-smitaðra eða þeirra með „óhefðbundna kynvitund“.

Alls eiga 612 þingmenn sæti á kúbverska þinginu, sem kemur saman tvisvar á ári og samþykkir vanalega lög með handauppréttingu.

Enginn þeirra sérfræðinga sem AP ræddi við man eftir að þessi staða hafi áður komið upp. „Þetta er án vafa í fyrsta sinn,“ segir sagnfræðingurinn Carlos Alzugaray og fyrrum stjórnarerindreki Kúbustjórnar.

Í frétt Guardian segir að fáir á Kúbu hafi þó tekið eftir þessum merku tímamótum, en atkvæðagreiðslan fór fram þann 20. desember á síðasta ári. Frumvarpið varð að lögum nú í sumar og voru það baráttumenn samkynhneigðra sem bentu á hvernig Castro hafi greitt atkvæði, en þingkonan er mikill baráttumaður réttinda samkynhneigðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×