Innlent

Fyrrverandi þingmaður fékk tæpar tólf milljónir fyrir læsisverkefnið

Sveinn Arnarsson skrifar
Það var ráðuneytisstjórinn, Ásta Magnúsdóttir, sem leitaði til Guðfinnu vegna lestrarverkefnisins.
Það var ráðuneytisstjórinn, Ásta Magnúsdóttir, sem leitaði til Guðfinnu vegna lestrarverkefnisins. vísir/vilhelm
Fyrirtæki í eigu Guðfinnu Bjarnadóttur, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, fékk samtals 11,6 milljónir króna fyrir vinnu fyrir ráðuneyti menntamála við að stýra verkefnaáætlun um þjóðarátak vegna læsis barna í grunnskólum. Staða verkefnisstjóra var ekki auglýst opinberlega.

Guðfinna segir ráðgjafarsamningana ekki vera óeðlilega háa. Þeir taxtar sem settir voru upp í samningunum séu svipaðir því sem gengur og gerist í dag. Menntamálaráðherra hafi ekki ráðið Guðfinnu heldur ráðuneytisstjóri mennta- og menningarmála, Ásta Magnúsdóttir.

„Ég hafði heyrt af þessari vinnu eftir að Hvítbókin kom út og ráðuneytisstjóri hafði samband við mig og spurði hvort ég væri til í að stýra þessu verkefni,“ segir Guðfinna.

Guðfinna S. Bjarnadóttir
Samningarnir sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gerði við fyrirtæki Guðfinnu og eiginmanns hennar, Vilhjálms Kristjánssonar, LC ráðgjöf ehf., eru tveir. Sá fyrri er dagsettur þann 26. september, sextán dögum eftir fyrsta fund verkefnahópsins, og hljóðar hann upp á átta milljónir króna til handa fyrirtækinu. Verkefni hennar var að móta aðgerðaáætlun í samræmi við markmið Hvítbókar um eflingu menntunar. Verkáætlun um aðgerðir til eflingar læsi áttu samkvæmt samningi að liggja fyrir í desember það ár.

Seinni samningurinn, sem hljóðar upp á 3,6 milljónir króna, snýst um vinnu Guðfinnu við að gegna hlutverki ráðgjafa í samráði við ráðuneytisstjóra um sáttmála um læsi. Miðað var við vinnu verksala á tímabilinu frá febrúar 2015 til loka júlí.

Athygli vekur að seinni samningurinn er undirritaður þann 7. apríl eða tveimur mánuðum áður en Guðfinna hóf störf við verkefnið. „Fyrst var gerður munnlegur samningur við Guðfinnu en svo náðum við bara illa saman til að klára undirritun,“ segir Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri.

Fjórir aðrir fulltrúar í verkefnahópi um læsi fengu hver um sig 300 þúsund króna þóknun fyrir vinnu sína, 1,2 milljónir samtals. Því hefur aðeins launakostnaður við verkefnastjórn um eflingu læsis og þjóðarátak menntamálaráðherra kostað 12,8 milljónir króna.

Guðfinna Bjarnadóttir hefur rekið ráðgjafarfyrirtæki frá árinu 1986. Hún var rektor Háskólans í Reykjavík þar til hún settist á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2007 og sat þar í tvö ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×