Erlent

Fyrrverandi forsætisráðherra Noregs haldið á flugvelli vegna tilskipunar Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs.
Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs. Vísir/AFP
Kjell Magne Bondevik, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, var stoppaður á flugvellinum í Washington á miðvikudag og yfirheyrður í um klukkustund vegna tilskipunar Donald Trump, Bandaríkjaforseta.

Að sögn Bondevik var ástæðan sú að í vegabréfi hans mátti sjá að hann hafði ferðast til Írans. Samkvæmt tilskipun Trump hefur öllum ríkisborgurum Íraks, Írans, Líbíu, Sómalíu, Súdans, Sýrlands og Jemens verið meinað um inngöngu í Bandaríkin.

Bondevik var að lokum sleppt og leyft að halda för sinni áfram en hann var á leið á fund með áhrifamönnum í Washington sem haldinn var í gær og var Donald Trump á meðal þeirra sem héldu þar erindi.

„Það lítur út fyrir að þegar nafn á tilteknum löndum sést í vegabréfinu fari allt af stað. Þetta skapar óþarfa grun og mér fannst þetta töluvert ögrandi,“ sagði Bondevik í samtali við TV2 í Noregi.

Sagði Bondevik, sem er með diplómatískt vegabréf, að engin ástæða væri fyrir Bandaríkin að óttast fyrrverandi forsætisráðherra sem hefði heimsótt landið í opinberum erindagjörðum oft og mörgum sinnu.

Bondevik var forsætisráðherra Noregs á árunum 1997 til 2000 og aftur frá 2001 til 2005. Honum líkar ekki sú stefna sem Bandaríkin hafa tekið undir stjórn Trump.

„Ég skil að menn hafi áhyggjur af hryðjuverkum en að einbeita sér að einum hóp er ekki í lagi. Ég hef áhyggjur af framtíðinni.“




Tengdar fréttir

Íslensk stjórnvöld mótmæla tilskipun Trump

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur komið á framfæri mótmælum íslenskra stjórnvalda við tilskipun Bandaríkjaforseta um bann við komu flóttafólks og borgara sjö ríkja til Bandaríkjanna.

Íslenskir þingmenn fordæma tilskipun Bandaríkjaforseta

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, mun koma áleiðis skýrum skilaboðum stjórnvalda sem fordæma tilskipun forseta Bandaríkjanna sem bannar ríkisborgurum sjö þjóða að koma til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×