Viðskipti innlent

Fyrrum yfirmenn SPRON vinna í þrotabúi sjóðsins

Sigríður Mogensen skrifar

Fyrrverandi stjórnarmaður SPRON, sem skuldar Kaupþingi á annað hundrað milljónir króna, og yfirmaður sem átti að hafa eftirlit með áhættu hins gjaldþrota sparisjóðs, vinna báðir í þrotabúi sjóðsins. Slitastjórnin segir þá ekki vanhæfa.

Fréttastofa greindi frá málefnum slitastjórnar Spron síðustu helgi. Hefur nú fengist staðfest að tveir fyrrverandi yfirmenn hjá Spron starfi fyrir slitastjórnina.

Annar þeirra, Ari Bergmann Einarsson, sat í stjórn Spron, var útibússtjóri og náinn samstarfsmaður Guðmundar Haukssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra.

Ari var einnig stofnfjáreigandi í Spron, og fékk lán hjá Kaupþingi fyrir bréfunum, sem eru verðlaus í dag. Viðskiptin fóru fram í gegnum einkahlutafélag Ara.

Í ársreikningi félagsins má sjá að skuld hans við Kaupþing stóð í 130 milljónum í lok 2008.

Heimildir herma að skuldin sé enn ógreidd, og þarf að öllum líkindum að afskrifa hana.

Arðgreiðslur til einkahlutafélags hans námu 140 milljónum frá 2006 til 2008.

Ari starfar í þrotabúi Spron og situr þar lánanefndafundi, þar sem ákvarðanir eru teknar um afskriftir og innheimtu lána.

Þá fundi sitja einnig starfsmenn Arion banka - þar sem Arion hefur sinnt ýmsum málum fyrir þrotabú Spron.

Annar starfsmaður þrotabúsins sem einnig situr lánanefndarfundi er Páll Árnason, fyrrverandi regluvörður og yfirmaður áhættustýringar Spron. Sem slíkur átti hann að hafa eftirlit með áhættu í rekstri sparisjóðsins, sem nú er gjaldþrota.

Hvorki náðist í Pál né Ara í dag, en þau svör fengust hjá slitastjórn Spron að þegar hæfi er metið sé litið til fyrri starfa, reynslu og persónulegra fjármála. Ari og Páll sinni þjónustustörfum og taki engar ákvarðanir vegna lánamála.

Þær séu teknar af slitastjórn. Þar sem Ari sé ekki í persónulegri ábyrgð fyrir skuldum sínum hafi þær ekki áhrif á hæfi hans.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×