Innlent

Fyrningafrumvarp kom fjármálastofnunum í opna skjöldu

Sigríður Mogensen skrifar

Lánastofnanir geta haldið kröfum á hendur skuldurum uppi lengur en í tvö ár eftir gjaldþrot, að uppfylltum þröngum skilyrðum, samkvæmt nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Meginreglan verður þó sú að krafan falli niður að þeim tíma loknum.

Frumvarpið sem forsætis- og fjármálaráðherra boðuðu í morgun kom fjármálastofnunum í opna skjöldu, en þær bjuggust ekki við þessu. Frumvarpið verður kynnt þingflokkum stjórnar - og stjórnarandstöðu á næstu dögum.

Það gengur út á að skuldir fyrnist á tveimur árum eftir gjaldþrot, og er þá talið frá þeim tíma sem skiptalok eiga sér stað. Þetta er talin vera mikil réttarbót fyrir skuldara, en húsnæðisskuldir fyrnast nú á áratug.

"Þannig að það sé ekki verið að elta þá sem fara í gjaldþrot út yfir gröf og dauða," sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, lagði fram sambærilegt frumvarp á síðasta þingi en það sat fast í allsherjarnefnd í sumar. Það gekk út á að skuldir fyrndust endanlega á fjórum árum og að lánastofnanir gætu ekki haldið uppi kröfum eftir það. Lögspekingar töldu að slíkt bryti í bága við eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Nýja frumvarpið felur hins vegar í sér að kröfuhafar, það er að segja bankar og aðrar lánastofnanir, geta að uppfylltum ákveðnum skilyrðum fengið kröfu sína endurnýjaða eftir tvö ár með því að höfða mál á hendur skuldaranum fyrir dómstólum.

Fjármálastofnanir þurfa þá að sýna fram á að brýn ástæða sé til að viðhalda kröfunni, og að líkur séu á að eitthvað fáist upp í hana. Skilyrðin eru meðal annars að skuldari sé staðinn að saknæmu athæfi eða annarri ámælisverðri háttsemi, eftir því sem næst verður komist.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×