Innlent

Fyrir þá sem eru þreyttir á spillingu

„Það þarf ákveðið C-vítamín í þetta samfélag til að koma hjólum atvinnulífsins í gang,“ sagði Lilja á blaðamannafundinum.
„Það þarf ákveðið C-vítamín í þetta samfélag til að koma hjólum atvinnulífsins í gang,“ sagði Lilja á blaðamannafundinum. Fréttablaðið/vilhelm
„Samstaða á að höfða til kjósenda sem hafa fengið nóg af spillingunni í samfélaginu og hafa fengið nóg af misskiptingunni á milli þeirra sem eiga og hinna sem skulda.“ Þetta sagði þingkonan Lilja Mósesdóttir þegar hún kynnti nýjan stjórnmálaflokk sinn, Samstöðu – flokk lýðræðis og velferðar, í Iðnó í gær. Flokkurinn hefur fengið listabókstafinn C.

Lilja er formaður flokksins til bráðabirgða, en gert er ráð fyrir að aðalfundur í maí eða júní kjósi forystu, nema blásið verði til kosninga fyrr. Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur og og Agnes Arnardóttir atvinnurekandi gegna nú varaformennsku. Lilja sagði að sextán manna undirbúningshópur hefði unnið að stofnun flokksins. Í honum er meðal annars að finna fyrrverandi liðsmenn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Samstaða leggur einna mesta áherslu skuldaleiðréttingu heimila og aukna lýðræðisþátttöku almennings. Liðsmenn hans staðsetja sig hvorki til vinstri né hægri á hinu pólitíska litrófi. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×