Erlent

Fullyrt að 21 Íslendingur hafi dáið árið 2012 vegna mengunar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Kína er mengaðasta land jarðar. Ástandið er slæmt í flestum stórborgum heims, segir WHO.
Kína er mengaðasta land jarðar. Ástandið er slæmt í flestum stórborgum heims, segir WHO. vísir/epa
Tuttugu og einn Íslendingur lést árið 2012 af völdum loftmengunar, segir í nýútkominni skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Ísland er þó eitt af fimm minnst menguðu ríkjum jarðar.

Kína skipar efsta sætið yfir menguðustu lönd heims samkvæmt skýrslunni og hefur stofnunin lýst yfir áhyggjum vegna versnandi ástands. 

Sjá einnig:Tengsl á milli svifryks og ótímabærra andláta

Þrjár milljónir manns létust árið 2012 vegna slæmra loftgæða utanhúss en sé innanhúss mengun talin með létust sjö milljónir manna. Þar af lést ein milljón í Kína, 600 þúsund á Indlandi og 140 þúsund í Rússlandi.

Þá segir að níu af hverjum tíu andi að sér menguðu lofti og að níutíu og tvö prósent mannkyns búi á svæðum þar sem loftmengun fer yfir þau heilsu- og umhverfismörk sem stofnunin hefur sett.

WHO segir að ástandið sé mun verra en áður hafi talið og að aðgerða sé þörf.

Þorsteinn Jóhannsson, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, sagði í samtali við Vísi í september í fyrra að um þrjátíu til sjötíu manns deyi hér á landi sökum mengunar. Dauðsföllin séu algengari á meðal fólks yfir miðjum aldri.

„Almennt séð er staðreynd að loftmengun veldur ótímabærum dauðsföllum. Þá eru það sérstaklega hjartaáföll og heilablóðföll. Ef það koma háir mengunardagar þá er aukning á dauðsföllum af völdum þeirra sjúkdóma, dagana á eftir. Svo er líka annar þáttur sem er aukning á krabbameini. Þar sjá menn kannski ekki tengsl við ákveðna daga heldur eru þar einstaka mengunarefni sem eru há í ársmeðaltali,“ sagði Þorsteinn.




Tengdar fréttir

Rannsaka þarf tengsl svifryks og andláta

Mjög brýnt er að rannsaka hvaða áhrif svifryksmengun hefur á heilsu fólks hér á landi og ótímabær andlát í tengslum við mengunina, segir Vilhjálmur Rafnsson prófessor í Læknisfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×