Innlent

Frumvarpið ávísun á áralangar deilur

Lítil sátt ríkir um frumvarp sjávarútvegsráðherra en þessa dagana skila hagsmunasamtök og aðrir af sér álitsgerðum um frumvarpið. Fréttablaðið/stefán
Lítil sátt ríkir um frumvarp sjávarútvegsráðherra en þessa dagana skila hagsmunasamtök og aðrir af sér álitsgerðum um frumvarpið. Fréttablaðið/stefán
Frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu getur ekki orðið grundvöllur að sátt um rekstrargrunn sjávarútvegsins. Þvert á móti mun það kalla fram áframhaldandi deilur á komandi árum og verða tilefni stöðugra breytinga á kerfinu. Þetta er mat Samtaka atvinnulífsins, Samtaka fiskvinnslustöðva og Landssambands íslenskra útvegsmanna sem þó lýsa yfir samstarfsvilja við stjórnvöld.

Samtökin hafa sent sjávarútvegsráðherra umsögn sína um frumvarpið. Þar segja þau ekkert að finna í frumvarpsdrögunum sem líklegt sé til að bæta hag þeirra fyrirtækja sem starfa í sjávarútvegi. Það og fyrirsjáanleg átök séu ólíkleg til að leiða til nokkurs annars en verri afkomu greinarinnar og um leið rýra hag fyrirtækjanna, fólksins sem hjá þeim starfar, þjónustuaðila, sveitarfélaga og þjóðarinnar allrar.

Þá eru frumvarpsdrögin sögð ganga þvert á ítrekaðar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að skapa sjávarútveginum góð rekstrarskilyrði til lengri tíma.

Loks lýsa samtökin miklum áhyggjum vegna þess að ekkert mat er lagt á hugsanlegar afleiðingar af ákvæðum þessara frumvarpsdraga en von er á úttekt hagfræðinganefndar um áhrif frumvarpsins í lok mánaðarins. - mþl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×