Erlent

Friðarviðræðurnar í Astana: Vonast til að styrkja vopnahléssamkomulagið

atli ísleifsson skrifar
Staffan de Misturas, sérlegur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands.
Staffan de Misturas, sérlegur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands. Vísir/AFP
Friðarviðstæðum Sýrlandsstjórnar og fulltrúa uppreisnarhópa var fram haldið í kasöksku höfuðborginni Astana í morgun. Viðræðurnar hófust í gær og virðast enn ekki hafa skilað áþreifanlegum árangri.

Hörð orðaskipti einkenndu viðræður gærdagsins framan af en þó virðist gæta nokkurrar bjartsýni. „Enn er ekkert komið á hreint, en við erum bjartsýn,“ sagði Riyad Haddad, sendiherra Sýrlands í Rússlandi, í samtali við Interfax.

Yahya al-Aridi, einn af fulltrúum sýrlenskra uppreisnarhópa, hefur lýst samtölum gærdagsins sem „löngum og árangursríkum“.

Stjórnvöld í Rússlandi, Tyrklandi og Íran hafa haft milligöngu um viðræðurnar. Hefur Rússlandsstjórn sérstaklega hrósað Staffan de Misturas, sérlegum fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, fyrir aðild og þátttöku sína í viðræðunum.

Markmið viðræðnanna snýr að stórum hluta að því að styrkja vopnahléssamkomulagið sem náðist í lok desember, og ryðja þar með veginn fyrir frekari friðarviðræður á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirhugaðar eru í Genf í næsta mánuði.


Tengdar fréttir

Friðarviðræður hafnar í Astana

Friðarviðræður sem ætlað er að binda enda það ófremdarástand sem ríkt hefur í Sýrlandi síðustu ár hófust í kasöksku höfuðborginni í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×