Innlent

Friðargangan fjölmennari en nokkru sinni fyrr

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Friðargangan fór fram í miðborg Reykjavíkur fyrr í kvöld en gangan er áminning um afleiðingar styrjalda. Friðargangan hefur verið gengin á þessum degi í 37 ár. 

Gangan hófst á Hlemmi og lauk á Austurvelli. Ingibjörg Haraldsdóttir, einn af skipuleggjendum göngunnar, sagði í samtali við Stöð 2 að gangan væri yfirleitt fjölmennari þegar það er alvarlegt ástand í heiminum. „Þegar gangan var að byrja og verið var að berjast gegn kjarnorkuvopnum og síðan þegar Íraksstríðið geysaði, þá voru óvenju fjölmennar göngur.“

Ingibjörg telur að gangan í ár sé ef til vill sú fjölmennasta hingað til. „Íslendingar eru friðsamt fólk. Við viljum vinna gegn stríði og við viljum hjálpa þessu flóttafólki sem á í erfiðleikum í dag,“ sagði Ingibjörg. 

Mikill fjöldi í bænum

Mikill fjöldi fólks er nú í miðborg Reykjavíkur enda flestar verslanir opnar talsvert langt fram eftir á Þorláksmessu. Að sama skapi hefur verið talsverður erill í verslunarmiðstöðvum í dag en verslanir í Kringlunni og Smáralind eru opnar til klukkan 23 í kvöld.

Lokað hefur verið fyrir umferð á neðri hluta Laugavegs fyrir neðan Vatnsstíg. Að sama skapi er Skólavörðustígur lokaður neðan við Bergstaðastræti.

Að sögn lögreglu er hefur umferð í borginni gengið klakklaust fyrir sig þrátt fyrir margmennið. Ekki hafa orðið nein alvarleg umferðaróhöpp í höfuðborginni það sem af er kvöldi.  






Fleiri fréttir

Sjá meira


×