Innlent

Fréttir vikunnar: Gunnar yfirheyrður og fimmta hverju fóstri eytt

Það var í byrjun vikunnar sem Vísir greindi frá því að Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður í Krossinum hefði mætt til yfirheyrslu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna ásakana um kynferðisbrot. Sjálfur sagði hann síðar í viðtali við Vísi að hann væri bjartsýnn á niðurstöðuna.

„Þetta klárast sína réttu boðleið og ég er mjög bjartsýnn á góða niðurstöu," sagði Gunnar, þegar hann var inntur eftir því hvert framhald málsins yrði. Hann hefur ávallt neitað ásökunum kvennanna.

Þremenningarnir ætla ekki að stofna stjórnmálaflokk.
Þingmenn Vinstri grænna, þau Lilja Mósesdóttir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason, sem öll yfirgáfu þingflokk Vinstri grænna, ætla ekki að stofna nýjan þingflokk. Þetta kom fram í vikunni en í tilkynningu sem þremenningarnir sendu frá sér sagði:

„Staðan í íslenskum stjórnmálum er óráðin. Það er niðurstaða okkar að ekki sé tímabært að svo stöddu að stofna nýjan þingflokk. Við munum starfa sem óháðir þingmenn og í anda þeirra hugsjóna sem við töluðum fyrir í aðdraganda síðustu kosninga."

Annar þingmaður var hinsvegar ósáttur út í bloggskrif þingmanns Vinstri grænna. Þannig sendi lögfræðistofa, fyrir hönd Guðlaug Þór Þórðarson, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, bréf til Björns Vals Gíslasonar, og honum hótað málssókn bæðist hann ekki afsökunar á skrifum sínum.

Björn Valur skrifaði um umdeilda styrkveitingar til Sjálfstæðisflokksins sem upplýst var um á Fréttastofu stöðvar 2 og Vísis árið 2009. Björn Valur segir Guðlaug sekan um að hafa þegið mútugreiðslur, sem er refsivert samkvæmt almennum hegningarlögum. Hann fékk fimm daga til þess að biðjast afsökunar, gerði hann það ekki, yrði honum stefnt.

Þá greindi Vísir frá því að næstum fimmta hverju fóstri á Íslandi er eytt, samkvæmt tölum sem birtust í Talnabrunni Landlæknis í vikunni. Sé Ísland borið saman við önnur Norðurlönd eru tiltölulega fáar fóstureyðingar framkvæmdar hér á landi miðað við annarsstaðar.

Tölur Landlæknis eru úr skýrslunni Induced aborttions in the Nordic countries, en hún byggir á gögnum frá árinu 2009. Það ár voru samtals tæplega 81 þúsund fóstureyðingar gerðar á Norðurlöndunum. Hlutfallslega flestar voru gerðar í Svíþjóð, eða 335 á hverja 1000 lifandi fædda en fæstar í Finnlandi. Á Íslandi voru hins vegar gerðar 193 fóstureyðingar á móti hverjum 1000 sem fæddust lifandi.

Í gær fékk lögreglan svo tilkynningu um konu sem hafði tekið inn baneitrað fíkniefni. Stúlkan lést á heimili í Árbænum og reyndist hafa tekið inn baneitrað amfetamín. Konan var 21 árs gömul en hún átti afmæli daginn áður en hún lést.

Yfir tíu manns hafa verið handteknir vegna málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×