Innlent

Fréttaskýring: Mengun sem verður að rannsaka

Hola blæs á Hellisheiði. Í gufunni er brennisteinsvetni í töluverðu magni. Gerðar eru tilraunir á vegum OR til að skilja gas frá gufu, blanda gasið fráfallsvatni og dæla því niður í jörðina. Þessi lausn gæti reynst umhverfisvænn og ódýr kostur.
Hola blæs á Hellisheiði. Í gufunni er brennisteinsvetni í töluverðu magni. Gerðar eru tilraunir á vegum OR til að skilja gas frá gufu, blanda gasið fráfallsvatni og dæla því niður í jörðina. Þessi lausn gæti reynst umhverfisvænn og ódýr kostur. Mynd/GVA
Árið 2006 hóf Orkuveita Reykjavíkur rekstur Hellisheiðarvirkjunar sem leiddi af sér aukinn styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti á höfuðborgarsvæðinu. En hvað er brennisteinsvetni og stafar fólki ógn af auknu magni þess í andrúmsloftinu?

Töluverð umræða hefur verið um möguleikann á skaðlegum áhrifum brennisteinsvetnis í gufu frá jarðhitavirkjunum allt frá því að rekstur Hellisheiðarvirkjunar hófst í október 2006. Áberandi lykt, oft kölluð hveralykt, berst í meiri mæli yfir íbúabyggðir þegar vindur stendur af þeim tveim jarðhitavirkjunum sem standa næst byggð á höfuðborgarsvæðinu, en það eru austlægar og suðaustlægar áttir.

 

En er það svo? Berst skaðlegt magn brennisteinsvetnis til íbúa frá jarðhitavirkjunum á Hellisheiði og Nesjavöllum?

KaliforníaÁ vef Umhverfisstofnunar er stuttlega fjallað um brennisteinsvetni í samhengi við íbúabyggð. Þar er tekið eftirfarandi dæmi: „Í Kaliforníu hafa umhverfismörk verið miðuð við næmni fólks fyrir lykt, þar eru mörkin 42 míkrógrömm í rúmmetra sé miðað við klukkustundarmeðaltal, en rannsóknir sýna að við þann styrk skynji um 80 prósent almennings lyktina. Mælingar frá því í febrúar 2006 til miðs febrúar 2007 sýndu að styrkur brennisteinsvetnis í Reykjavík fór samtals 48 sinnum yfir umhverfismörk Kaliforníu í mislöngum tímabilum, þar af urðu 45 skipti eftir 1. september 2006. Vegna þessa hefur meira borið á hveralykt í höfuðborginni eftir að Hellisheiðarvirkjun var gangsett."

 

Þar segir einnig um áhrif brennisteinsvetnis á heilsu manna að í miklum styrk sé brennisteinsvetni skaðlegt heilsu. Það eru helst augu, lungu og öndunarvegur sem eru viðkvæm fyrir því. Lægsti styrkur sem talinn er valda skaða er um það bil 15 þúsund míkrógrömm í rúmmetra „en það er meira en 100 sinnum yfir þeim styrk sem mest hefur mælst í Reykjavík".

 

Það er sem sagt óumdeilt að gasið er skaðlegt heilsu manna í miklu magni en hitt liggur eftir órannsakað hvaða áhrif brennisteinsvetni hefur á heilsu manna í litlu magni yfir langt tímabil. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra setti reglugerð í fyrrasumar um takmarkanir á losun brennisteinsvetnis byggða á þeim rökum að óvissa ríki um heilsufarsáhrif af langvarandi innöndun og því taldi hún nauðsynlegt að setja mörkin þannig að almenningur fengi notið vafans. Var talið nauðsynlegt að setja heilsuverndarmörkin við fimmtíu míkrógrömm í rúmmetra að meðaltali á 24 klukkustundum. Mörk Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) eru 150 míkrógrömm og eru sett með tilliti til mögulegra bráðaáhrifa á augu en ekki til langtímaáhrifa á heilsu fólks sem býr við þessa mengun að jafnaði.

Hjartalyf og mengunRagnhildur G. Finnbjörnsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur, hefur rannsakað hvort samband er milli loftmengunarefna og afgreiðslu á hjartalyfjum í Reykjavík. Niðurstöðurnar birti hún í meistaraprófsritgerð sinni Loftmengun í Reykjavík og notkun lyfja við hjartaöng.

 

Ragnhildur fann veikt samband milli styrks brennisteinsvetnis og úttekta á hjartalyfjum. Þetta samband fannst aðeins þegar skoðað var sólarhringsmeðaltal brennisteinsvetnis og úttektir á öllum æðavíkkandi lyfjum en ekki þegar skoðaðar voru sérstaklega úttektir á lyfjum við hjartaöng.

 

„Þetta er fyrsta rannsóknin, hér á landi og erlendis, sem finnur samband milli loftmengunar og fjölda afgreiðslna á hjartalyfjum og því verður að álykta með varúð hvort um sé að ræða orsakasamband eða ekki milli loftmengunar og hjartasjúkdóma. Engu að síður benda niðurstöðurnar til að aukning í loftmengun auki fjölda afgreiðslna á lyfjum við hjartasjúkdómum og því er nauðsynlegt að skoða þetta samband frekar," segir Ragnhildur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×