Innlent

Framhald viðræðna skýrist um helgina

Þorgeir Helgason skrifar
Sjálfstæðismanna fundaði í gær í Valhöll. Eftir fundinn fór Bjarni Benediktsson á fund forseta og tilkynnti um formlegar viðræður.
Sjálfstæðismanna fundaði í gær í Valhöll. Eftir fundinn fór Bjarni Benediktsson á fund forseta og tilkynnti um formlegar viðræður. vísir/eyþór
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við formenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

„Við förum auðvitað í viðræðurnar því að við eygjum von á því að það sé einhver möguleiki að ræða málin og ná góðum umbótum,“ segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. Hann segist gera sér grein fyrir því að þetta séu ólíkir flokkar og að mörgu leyti ósamstæðir. „Það er alveg ljóst að fólk innan flokksins er mishrifið af því að við séum að hefja stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Óttarr.

„Það er möguleiki á að við náum saman um stóru málefnin og vonandi gengur það sem allra best,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. Hann segir stefnu Viðreisnar liggja ljósa fyrir þegar gengið er til viðræðnanna.

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir að flokkurinn hefði viljað halda áfram ríkisstjórnarsetu og sé tilbúinn til þess komi það til greina. „Það er ekki komin niðurstaða enn og við skulum sjá hvernig þetta fer,“ segir hún.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboð og Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segjast frekar hefðu viljað sjá umbótastjórn myndaða af stjórnarandstöðuflokkunum og Viðreisn.

„Ég hef mestar áhyggjur af að þessir flokkar nái að sameinast um grimma hægri stefnu, til dæmis þegar kemur að einkavæðingu og einkarekstri í velferðar- og menntamálum, og það er áhyggjuefni fyrir landsmenn,“ segir Katrín. Hún segir ljóst að annaðhvort munu Sjálfstæðisflokkurinn eða Björt framtíð og Viðreisn þurfa að gefa mikið eftir í stefnumálum sínum til þess þeir geti myndað ríkisstjórn.

Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í gær sagði Bjarni að strax eftir helgi kæmi í ljós hvort flokkarnir þrír eigi samleið í ríkisstjórnarsamstarfi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×