Innlent

Frægir gegn Gillz

Egill Einarsson.
Egill Einarsson.

Enn bætist í hóp óánægðra á Facebook vegna samstarfs Egils Einarssonar, oft kallaður Gillzenegger, við Já vegna ritun símaskráarinnar. Nú hafa á fimmta hundrað einstaklingar slegist í hópinn á Facebook. Um það bil jafn margir hafa skrifað nafn sitt á mótmælalista sem finna má á netinu.

Samkvæmt Facebook síðunni er aðkomu Egils að símaskránni helst mótmælt vegna meintra kvenfyrirlitningar og bloggfærslu þar sem hann skrifaði niðrandi um feminista og þingmenn.

Í viðtali við Vísi í gær neitaði hann þessum ásökunum algjörlega og sagðist bera virðingu fyrir konum. Hann bætti svo við að hann ætti sjálfur mömmu. Færslan var skrifuð fyrir um þremur árum síðan og var fjarlægð af vef hans á sínum tíma.

Á meðal þeirra sem mótmæla aðkomu Egils að símaskránni eru allnokkrir þekktir einstaklingar. Meðal annars tónlistarmennirnir Svavar Knútur Kristinsson og Högni Egilsson, söngvari Hjaltalín.

Best klædda kona landsins, að mati Séð og Heyrt, hefur einnig skrifa nafn sitt á mótmælaplaggið. Það er tískuljósmyndarinn Saga Sigurðardóttir. Sjónvarps- og útvarpskonan Margrét Erla Maack virðist einnig vera misboðið auk stallsystur sinnar Elsu Maríu Jakobsdóttur.

Rithöfundarnir Gerður Kristný og Guðrún Eva Mínervudóttir láta svo ekki sitt eftir liggja. Þá vekur athygli að aðstoðarmaður forsætisráðherrans, Hrannar B. Arnarson, líkar hugmyndin að skrá sig á mótmælaskjalið og hefur staðfest þann áhuga á Facebook. Hann hefur þó ekki skráð sig á listann sjálfann.

Þrátt fyrir talsverð mótmæli hyggst Já ekki slíta samstarfinu við Egil. Framkvæmdastjóri fyrirtæksins sagði í viðtali við Vísi í gær að þeim þætti illa vegið að Agli í umræðunni.

Hún staðfestir hinsvegar að fjölmargir hefðu skráð sig úr símaskránni vegna aðkomu Egils að henni. Sigríður áréttaði þó að það væru alltaf skráningar í og úr símaskránni.

Þá bað hún viðskiptavini afsökunar hafi þeir móðgast vegna samstarfsins.


Tengdar fréttir

Gillz: „Ég elska konur og hef alltaf gert - mamma mín er kona!“

„Daginn eftir tók ég færsluna út og baðst afsökunar enda grófur einkahúmor þarna á ferð. Það mál var afgreitt þá og skil ekki tilganginn að vera að rifja þetta upp núna. Mér er líka gróflega misboðið að þessar konur skuli segja að ég hafi verið að hvetja til nauðgana. Að þær skuli lesa það út úr þessum vitleysisgangi er út hött og í raun ekki svaravert,“ segir Egill Einarsson, oft kallaður Gillzenegger.

Fjögur hundruð mótmæla Gillz vegna símaskráar

Hátt í fjögur hundruð manns hafa skráð sig á Facebook-síðu þar sem samstarfi Egils Einarssonar, oft nefndur Gillzenegger, vegna ritun símaskráarinnar er harðlega mótmælt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×