Menning

Frá Íslandi út í geim og aftur heim

Magnús Guðmundsson skrifar
Klara Þórhallsdóttir og Heiðar Kári Rannversson, sýningarstjórar að Geimþrá í Ásmundarsafni, í óða önn að setja upp sýninguna.
Klara Þórhallsdóttir og Heiðar Kári Rannversson, sýningarstjórar að Geimþrá í Ásmundarsafni, í óða önn að setja upp sýninguna. Visir/Anton Brink
Á sýningunni Geimþrá í Ásmundarsafni Listasafns Reykjavíkur eru verk eftir listamenn sem hver um sig hefur sett mark sitt á íslenska listasögu 20. aldar, einkum þegar litið er til þrívíðrar myndlistar. Auk verka Ásmundar Sveinssonar (1893–1982) eru á sýningunni verk eftir Gerði Helgadóttur (1928–1975), Jón Gunnar Árnason (1931–1989) og Sigurjón Ólafsson (1908–1982). Öll voru þau undir áhrifum frá módernisma síðustu aldar þegar trú á nýjungar og tækni var drifkraftur bæði vísinda og lista.

Sýningarstjórar eru þau Klara Þórhallsdóttir og Heiðar Kári Rannversson og Klara segir að titill sýningarinnar sé sóttur í samnefnt verk eftir Ásmund Sveinsson. „En það er líka afar viðeigandi að vera með þessa sýningu hér í Ásmundarsafni því safnið er gætt þeim eiginleikum að það eru svo mörg ólík og óvænt rými í þessu húsi. Rými sem skapa þá stemningu að maður getur leikið sér svolítið með verkin og leyft hverju verki að njóta sín í sínu rými. Að auki þá er birtan hérna svo stórkostleg, sérstaklega fyrir þrívíð verk, enda er húsið byggt fyrir þrívíð verk. Hugmyndin að sýningunni er líka að vissu leyti sprottin frá húsinu enda höfum við stundum verið að grínast með að það sé svolítið eins og geimstöð.

Klara Þórhallsdóttir og Heiðar Kári Rannversson, sýningarstjórar
Við erum þarna með listamenn sem flokka sig sem módernista og eru okkar aðalmyndhöggvarar en eitt af því sem sameinar þau er hvað þau eru mikið með hugann við himintunglin og hvað er handan við tunglið. Þessar skírskotanir er að finna í verkum þeirra allra, þó svo að það sé misbókstaflega, en Gerður nálgaðist þetta á dálítið annan hátt en karlarnir. Hún var mikið í dulspeki, en þessi dulspekifræði sem hún kynnti sér og stundaði í mörg ár eru mikið til byggð á stjörnufræði og það endurspeglast talsvert í verkunum hennar, bæði í formi og tákni. Maður sér þessi hvirfilform birtast og þau minna á himingeiminn og hvernig hreyfingin er í himingeimnum.

Nálgun karlanna er að mörgu leyti svolítið tæknilegri og þá sérstaklega Jóns Gunnars, sem notaði mikið vélaparta og annað slíkt í sínum verkum. Hann er líka aðeins seinna á ferðinni en hin þrjú. Tæknin sést þó líka hjá Ásmundi en hann er líka að nota fundin efni í sín verk, eins og t.d. í verki sem heitir Geimdrekinn, og hann reyndar hitti tilvonandi geimfara á Íslandi. Hann vísaði í þessa geimfara og var mjög uppveðraður yfir þeim og að þeir væru hérna á Íslandi en í næstu andrá yrðu þeir bara staddir á tunglinu.

En það sem einkennir sérstaklega sýn þessara listamanna, allavega Ásmundar, Gerðar og Sigurjóns, er að þetta er á þeim tíma sem framtíðin er svo björt. Síðan kemur Jón Gunnar með aðeins myrkari sýn á þessa framtíð, vangaveltur um hvað verður eiginlega um okkur með allri þessari vélvæðingu. Á þetta ekki bara eftir að hafa neikvæð áhrif og tortíma mannkyninu og náttúrunni? Þannig að það er þarna ákveðinn kynslóðamunur sem má einnig finna í vísindaskáldskap þar sem vísindin eru okkur ýmist til framfara eða tortímingar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×