Viðskipti innlent

Forstjóri Landsvirkjunar: Arðsemi Kárhnjúka er of lág

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að meðalarðsemi af Kárahnjúkavirkjun sé of lág. Arðsemin er að meðaltali 3,5 prósent að sögn Harðar en þetta kom fram á fundi Landsvirkjunar sem nú stendur yfir í Hörpu þar sem fjallað er um möguleika fyrirtækisins á sviði endurnýjanlegrar orku.

Tekjur virkjunarinnar eru 6 prósent af bókfærðu virði hennar og segir Hörður það einnig vera of lága tölu. Miðað við eðlilega staðla ættu tekjurnar að nema 9 prósentum af bókfærðu virði. Hörður segir að þrátt fyrir að arðsemin sé of lág þá hafi rekstur Kárahnjúka gengið vel. Framleiðslan var til að mynda 7,7 prósentum meiri í fyrra en gert hafði verið ráð fyrir. Stofnkostnaður Kárahnjúka með öllu nam 2,3 milljörðum dollara.

Þá kom fram í máli Harðar að orkuverð til stórra orkukaupenda hafi verið of lágt og hefur hefur bitnað á arðsemi Landsvirkjunar. Fyrirtækið skilaði síðast 73 milljónum dollara í hagnað, en hagnaðurinn ætti að vera 180 milljónir dollara, miðað við 1,6 milljarða dollara eigið fé.

Þrátt fyrir þetta er Landsvirkjun að mati Harðar fjárhagslega sterkt fyrirtæki en þjóðin hefur ekki notið nægilegs arðs af fyrirtækinu og rekstrinum.

Fylgst er með fundinum á forsíðu Vísis í gegnum Twitter.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×