Innlent

Forsætisráðherra um kaupauka: „Taktlaust og jafnvel siðlaust“

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Ráðherrann boðar aðgerðir gegn félögunum og segir meðal annars koma til greina að skattleggja tekjurnar sérstaklega.
Ráðherrann boðar aðgerðir gegn félögunum og segir meðal annars koma til greina að skattleggja tekjurnar sérstaklega. Vísir/Stefán
Forsætisráðherra segir kaupaukagreiðslur félaga sem halda utan um eignir föllnu fjármálafyrirtækjanna vera mjög taktlausar og jafnvel siðlausar. Hann boðar aðgerðir gegn félögunum og segir meðal annars koma til greina að skattleggja tekjurnar sérstaklega.

20 lykilstarfsmenn eignarhaldsfélagsins Kaupþings munu fá kaupauka sem geta numið allt að einum og hálfum milljarði króna samanlagt. Þetta var staðfest á aðalfundi félagsins í gærkvöldi. Kaupaukarnir eru háðir því að þessum starfsmönnum takist að hámarka virði óseldra eigna félagsins, en það á meðal annars 87% hlut í Arion banka. Sambærileg kaupaukakerfi hafa einnig verið samþykkt hjá gamla Landsbankanum og Glitni.

Glufur í skattkerfinu

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, óskaði í dag eftir fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis vegna málsins en þingmenn allra flokka hafa gagnrýnt þessar greiðslur. Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, tekur undir þá gagnrýni.

„Mér finnst þetta í raun og veru mjög taktlaust, og jafnvel siðlaust,“ segir Sigurður Ingi.

Hann segir að þó Íslendingum þyki almennt allt í lagi að sumum vegni vel þá þolum við mjög illa óréttláta skiptingu. Aðspurður hvort stjórnvöld muni á einhvern hátt bregðast við þessu bendir hann á að þetta sé fé í eigu erlendra aðila og greiðslurnar verði skattlagðar sem launatekjur. Þessar greiðslur bendi þó til þess að glufur séu í skattkerfinu og vísar hann einnig til dæma þegar einstaklingar fá miklar launahækkanir í gegnum kaupréttarsamninga.

„Ég ræddi það á þingflokksfundi Framsóknarflokksins í dag hvort að við ættum að setja á laggirnar einhvern starfshóp til að skoða þessar glufur sem að eru í kerfinu. Af því að, sérstaklega í þessum tilvikum, að þá kannski finnst okkur ekkert óeðlilegt að stærri hluti af þessum tekjum renni til samfélagsins en bara til örfárra einstaklinga,“ segir Sigurður.

Til skoðunar að skattleggja þessar tekjur sérstaklega

Skoða þurfi hvort hægt sé að fella þessi fyrirtæki undir ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, sem takmarkar fjárhæðir kaupauka við 25% af árslaunum starfsmanns. Einnig hvort hægt væri að skattleggja þessar tekjur sérstaklega.

„Það má alveg velta því fyrir sér hvort það sé rétta leiðin að finna einhverja slíka skattlagningu. Ég veit að Bretar fóru sambærilega leið og það var meðal annars vegna þess að bankakerfið þar, fjármálakerfið, fór ekki að lögum, fann glufur. Og mér finnst það koma til álita að skoða það en við þurfum að skoða þetta heildstætt og grípa til viðeigandi ráðstafana en kannski ekki gera eitthvað í bráðræði,“ segir Sigurður Ingi.


Tengdar fréttir

Glitnir greiðir starfsmönnum sínum einnig bónusa

Eignarhaldsfélag allra föllnu bankanna greiða starfsmönnum sínum bónusa en á hluthafafundi Glitnis í mars á þessu ári var tillaga um bónusgreiðslur til starfsmanna samþykkt.

Indriði segir hægt að setja sérstakan skatt á ofurbónusana

Samþykktar hafa verið milljarða greiðslur til stjórnenda Kaupþings og gamla Landsbankans. Fyrrverandi ríkisskattstjóri segir engin sérákvæði um slíkar greiðslur í lögum en hægt væri að leggja sérstakan skatt á þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×