Erlent

Forsætisráðherra Hollands: "Ef þér líkar ekki dvölin hér, farðu!“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands.
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands. vísir/afp
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, segir að hver sá sem hafnar gildum landsins ætti að yfirgefa landið. BBC greinir frá.

„Hagaðu þér eðlilega, eða farðu“ kom meðal annars fram í auglýsingu flokks forsætisráðherrans, sem birtist í dagblöðum þar í landi í dag. Í viðtali þar sem hann var spurður nánar út í auglýsinguna, sagði Rutte að hann teldi að innflytjendur ættu að aðlagast þeim gildum sem fyrir væru í Hollandi. „Ef þér líkar ekki dvölin hér, farðu!“

Ummæli hans eru talin vera viðbrögð við auknu fylgi Frelsisflokksins og tilraun til að ná til líklegra kjósenda hans sem hafa áhyggjur af innflytjendamálum landsins.

Formaður Frelsisflokksins er Geert Wilders, en flokkurinn er hallur undir þjóðernishyggju og vill meðal annars hefta för innflytjenda til landsins.

Kosningarnar fara fram 15. mars næstkomandi, en Frelsisflokkurinn mælist með nánast jafn mikið fylgi í skoðanakönnunum og flokkur Rutte, sem er hinn frjálslyndi Frelsis-og lýðræðisflokkur.

Wilders hefur tjáð sig um ummæli forsætisráðherrans á Twitter og segir hann að Rutte sé með orðum sínum að reyna að blekkja kjósendur. 

„Maðurinn sem vill opna landamæri, styður flóðbylgju flóttamanna og hælisleitanda inn í landið, Íslamsvæðingu, lýgur og blekkir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×