Innlent

Fólk með lifrarbólgu C fær úrelt lyf í sparnaðarskyni

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir. skrifar
Á Íslandi eru gefin lyfin Interferon og Ribavirin við lifrarbólgu C. Meðferðin er löng og erfið og notkun þeirra hefur í för með sér gríðarlegar aukaverkanir . Helgi V. Sverrisson formaður Félags lifrarsjúklinga segir að sjúklingar gangi í gegnum miklar þjáningar á lyfjakúrnum sé auk þess mjög langur, fólk missi stundum allt hárið og þurfi að vera rúmfast.

Það kostar um það bil fimm til átta milljónir að meðhöndla fólk með þessum lyfjum og svörunin er einungis á bilinu 50 til 70 prósent.
Þróunin í lyfjaiðnaðinum er hröð og á tveimur árum hafa komið fram fern ný líftæknilyf, Sofusbuvir, Daklinza,Olysio og Harvonir. Þau hafa mun færri aukaverkanir og svörun við meðferð er um 95 prósent. Það kostar hins vegar um fimmtán milljónir að meðhöndla fólk með þessum lyfjum og það er ástæða þess að þau eru ekki flutt til landsins.

Þetta er ekki eina dæmið um að hópum með ákveðna sjúkdóma sé neitað um bestu fáanlegu meðferð, til að mynda eru nýleg dæmi um slíkt gagnvart krabbameinssjúkum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu getur talsverður fjöldi sjúklinga ekki beðið lengur eftir nýju lifrarbólgulyfjunum. Þeir eru mjög veikir og svara ekki meðferð með gömlu lyfjunum. Helgi V. Sverrisson segir ekkert um þetta að segja. Þetta sé veruleikinn, Ísland sé þriðja flokks ríki í heilbrigðismálum.

Ólafur Baldursson lækningaforstjóri segir að  sérfræðingar spítalans telji rétt að nota þessi nýju lyf en sjúkratryggingar hafi forræði yfir málinu. Aðspurður hvort það eigi ekki að vera læknar sem forgangsraði í heilbrigðiskerfinu og ákveði hvort veita skuli meðferð sem getur verið spurning upp á líf og dauða segir Ólafur rétt að ítreka að að spítalinn telji rétt að veita bestu fáanlegu meðferð. Hann segir að það sé mjög umhugsunarvert hvernig staðið sé að þessum málum og það væri ákjósanlegt að forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu væri á forræði lækna en ekki sjúkratrygginga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×